Stofnendur Karen Millen, sem rekur verslanir með kventískufatnað og fylgihluti sem og Whistles keðjuna, hafa samþykkt að selja reksturinn til Oasis Group, sem er í meirihlutaeigu Baugs Group hf., í viðskiptum sem metin eru á 15,8 milljarða kr. Eignarhlutur stofnenda, Kevin Stanford og Karen Millen, í fyrirtækinu samsvarar 60%, en ýmsir utanaðkomandi hluthafar ráða yfir 40% hlutafjár. Greitt er fyrir kaupin með peningum og hlutabréfum og eignast hluthafar Karen Millen 25% hlut í hinu sameinaða fyrirtæki.

Með kaupunum verður til leiðandi fyrirtæki í verslun með kventískufatnað, sem á og rekur fjögur mismunandi vörumerki, með heildarsölu sem nemur um 46 milljörðum kr. og yfir 550 verslanir.

Oasis á og rekur 281 verslun í 14 löndum og er markhópur þess sjálfstæðar konur á aldrinum 18-30 ára sem fylgjast vel með tískustraumum. Coast sérhæfir sig í kvenfatnaði fyrir sérstök eða fínni tilefni og rekur samtals 135 verslanir. Karen Millen hefur markað sér sess utan hins almenna markaðar á jaðri hönnunarmerkjanna. Whistles höfðar til eldri markhóps með einstaklingsbundnari smekk en aðrar hátískubúðir.

Karen Millen rekur yfir 100 verslanir sem eru flestar staðsettar í Bretlandi, en einnig á Írlandi, meginlandi Evrópu, í Mið-Austurlöndum, Austurlöndum fjær, Rússlandi og Bandaríkjunum. Mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin tvö ár með opnun 40 nýrra verslana víðsvegar um heim. Áætluð velta fyrir rekstrarárið sem lýkur í janúar 2005 er 15,8 milljarðar kr., samanborið við 8,8 milljarða kr. í ársuppgjörinu frá janúar 2002.

Karen Millen Limited keypti Whistles í júlí 2002 fyrir 792 milljónir kr. Góður árangur náðist í samþættingu rekstrarins innan sex mánaða og er áætluð velta Whistles í árslok 2005 um 4,6 milljarðar kr.

Kevin Stanford, forstjóri Karen Millen sagði um kaupin: ?Við höfum komið fyrirtækinu vel á legg á undanförnum 24 árum og nú er tími til kominn að snúa sér að öðrum verkefnum. Við stofnuðum félagið á unglingsaldri og höfum ekki hug á að gera það sama alla okkar ævi. Þetta er stórkostlegt fyrirtæki og ég er viss um að það mun styrkjast verulega undir nýrri stjórn og ég er ánægður að eiga hluta að máli í þeirri framþróun.?

Derek Lovelock, forstjóri Oasis Stores, sagði: ? Karen Millen og Whistles eru vel heppnuð vörumerki og fullkomin viðbót við okkar eigin vörumerki, Oasis og Coast. Kaupin skapa því mjög ákjósanlegt eignasafn. Möguleikar á samlegðaráhrifum eru veruleg þegar þessi tvö vörumerki bætast í hópinn. Við munum halda áfram að byggja á þessum sterka grunni og búumst við að opna 50 nýjar verslanir á ári fyrir öll vörumerkin fjögur.?

?Þegar Baugur Group keypti Oasis ásamt stjórnendum félagsins síðla árs 2003 lýstum við því yfir að ætlun okkar væri að stuðla að enn frekari vexti félagsins með því að nýta reynslu, kunnáttu og aðstöðu Oasis. Við sáum þá að hægt væri að bæta tveimur eða þremur vörumerkjum við Oasis. Karen Millen og Whistles hæfa Oasis og Coast fullkomlega,? sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group.