Verslunarkerfi Landsteina Strengs hf. hefur verið sett upp á öllum stöðum sem selja vörur í tengslum við Olympíuleikana í Grikklandi sem standa yfir dagana 13. ? 29. ágúst n.k. Um er að ræða alls 110 verslanir og 250 búðarkassa. Eftir leikana verður kerfið sett upp á flughöfnum víðsvegar um Grikkland og hefur flugvöllurinn í Aþenu þegar tekið kerfið í notkun.

Grískur samstarfsaðili Landsteina Strengs, SCICOM, setti upp verslunarlausnina fyrir ástralska fyrirtækið Concepts Sports International. CSI rekur þessar verslanir en Landsteinar Strengur sér um tengingu milli afgreiðslukassa og Microsoft Business Solutions-Navision kerfisins.

?Enn á ný var verslunarlausn okkar valin úr stórum hópi verslunarlausna," segir Jón Heiðar Pálsson, sölustjóri Landsteina Strengs. ?Val Grikkjanna er mikil viðurkenning. Við höfum eytt miklum tíma og fjármunum í þróun vörunnar og nú er uppskerutími. Kerfið var einnig notað við sölu varnings í tengslum við nýafstaðna Evrópukeppni í knattspyrnu í Portúgal og er í notkun á Magalhaes Pessoa leikvanginum í Leiria þar sem m.a. fór fram leikur Frakklands og Króatíu. Danir völdu verslunarkerfið fyrir Parken leikvanginn í Danmörku og nú þegar hefur það verið valið verslunarkerfi næstu Olympíuleika sem verða haldnir í Kína árið 2008."

Olympíuleikarnir eiga rætur að rekja til 7. aldar fyrir Krist þegar íbúar hinna mörgu borgríkja Grikklands tóku að senda fremstu íþróttagarpa sína til borgarinnar Olympíu í Elís-héraði á vestanverðum Pelópsskaga. Er talið að fyrstu opinberu Olympíuleikarnir hafi verið haldnir þar árið 776 f. Kr. Leikarnir voru ekki aðeins íþróttakeppni, heldur einnig trúarhátíð til heiðurs Seifi, sem var æðsti guðinn í trú Grikkja.

Olympíuleikarnir voru haldnir á fjögurra ára fresti í hartnær 1100 - síðast árið 393 e. Krist en voru síðan bannaðir, einkum vegna tengsla við heiðna trú. Þeir voru síðan endurvaktir í breyttri mynd í lok 19. aldar.