*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 21. apríl 2013 17:56

Verslunarmenn í herferð fram að kosningum

400 verslanir taka þátt í herferð fyrir lægra vöruverði þar sem þrýst er á lækkun tolla.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Um 400 verslanir taka þátt í herferð Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) fram að kosningum. Herferðin er farin undir slagorðunum „Aukum kaupmáttinn - kjósum lægra vöruverð“.

„ Mikil samstaða er í okkar hópi um að tímabært sé að fara í umbætur á því umhverfi skatta, tolla og gjalda sem hækkar,að okkar mati, að óþörfu útgjöld íslenskra heimila. Verslunarmenn hafa því hengt upp plaköt, skilti og borða við innganga og afgreiðslukassa í öllum verslanamiðstöðvum, stórmörkuðum og fjölmörgum verslunum í öllum landshlutum, með skýrum skilaboðum til kjósenda,“ segir Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ meðal annars í tilkynningum frá samtökunum.

Margrét segir enn fremur að það séu sameiginlegir hagsmunir verslunar og almennings að verð á nauðsynjavöru lækki. „Ólíklegt er að þeir sem munu eiga erindi í verslanir fram að kosningum á laugardag, komist hjá því að sjá  skilaboðin. Þau eru í stuttu máli þessi: Það eru sameiginlegir hagsmunir almennings og verslunarinnar að verð á nauðsynjavöru lækki. Afleiðingin er að heimilin hafa þá meiri afgang til annarra hluta, kaupmáttur þeirra eykst, sem styrkir um leið sérvöruverslunina í landinu. Hún hefur átt undir högg að sækja. Núverandi tolla-, skatta- og vörugjaldaumhverfi hefur beinlínis stuðlað að flutningi fjölda starfa til verslunarborga í öðrum löndum. Það er engum í hag.