Rekstraraðilar Kringlunnar og Smáralindar standa í stórræðum um þessar mundir og eru miklar framkvæmdir fram undan auk þess sem báðar verslunarmiðstöðvar vinna nú hörðum höndum að því að undirbúa komu sænska risans H&M til landsins. Stjórnendur segjast finna fyrir gríðarlegri eftirspurn eftir verslunarhúsnæði en þrátt fyrir að kaupmenn finni margir hverjir fyrir kaupmáttaraukningu meðal landsmanna er aukningin í verslun þó nokkuð hæg.

Ef litið er yfir ársreikninga Smáralindar undanfarin ár má glögglega sjá að reksturinn hefur verið þungur og eigið fé félagins þannig neikvætt um allt að 138 milljónir á árunum 2010-2013. Þá skilaði rekstrarfélagið einnig tapi árin 2010, 2013 og 2015. Þrátt fyrir það eru þó jákvæð teikn á loft enda virðist staða eigin fjár hafa batnað umtalsvert auk þess sem jafn stígandi hefur verið í rekstrartekjum félagsins frá árinu 2010. Smáralind ehf. er að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins Smáralind sem er í eigu fasteignafélagsins Reginn.

Krefjandi ár að baki

Framkvæmdastjóri Smáralindar, Sturla Gunnar Eðvarðsson, fer ekki í grafgötur með það að undanfarin ár hafi verið krefjandi. „Reksturinn hefur almennt farið batnandi en þó ekki í neinum stórum stökkum. Það er auðvitað misjafnt milli verslananna sjálfra hvernig þær hafa verið að standa sig. Sumar hafa verið að standa sig vel en aðrar ekki, eins og gengur og gerist í þessari flóru, sumar vörur eru heitari en aðrar. Ég myndi segja að svona almennt séð sé hægur bati í verslun á Íslandi. Við horfum þó bjartsýn til framtíðar en á síðasta ári heimsóttu 4,2 milljónir gesta Smáralind og er það aukning milli ára.“

Sturla segir að þegar hann hafi tekið við störfum framkvæmdastjóra árið 2010 hafi róðurinn verið þungur og félagið að berjast við afleiðingar hrunsins. Síðan þá hafi batinn verið hægur. „Það er m.a. ástæðan fyrir því að við ákváðum að ráðast í þær breytingar sem nú standa yfir á Smáralindinni.

Verslunarmiðstöðvar munu og eru að breytast í þá átt að þær eru orðnar að meiri afþreyingarmiðstöðvum. Fólk sækir ekki aðeins í verslunarmiðstöðvar út af verslununum heldur spilar samfélagslegi þátturinn líka stórt hlutverk. Í nýjum verslunarmiðstöðvum á Norðurlöndunum er allt að 20% af flatarmáli þeirra nýtt undir veitingastaði, kaffihús og öðruvísi verslanir en voru hér á árum áður. Það er ekki óeðlilegt að menn séu að stinga höfðinu inn á kaffihús hér og þar og þá með öðrum hætti en áður. Þó að verslun og viðskipti séu ennþá mikilvægasti þátturinn þá eru fleiri hlutir farnir að skipta máli,“ útskýrir Sturla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.