Margrét Sanders hættir sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu á aðalfundi samtakanna þann 14. mars næstkomandi. Hún er ánægð með árangur síðustu fimm ára en nefnir einnig hluti sem hefði mátt klára betur. Eru það þá helst þeir sem tengjast vinnuskilyrðum og kjaramálum starfsmanna í verslunum og þjónustu, enda staðan erfið á vinnumarkaði nú þegar horfir til verkfalla.

„Það er mjög mikilvægt að allir aðilar, atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og starfsfólkið, verði opin fyrir breytingum því við þurfum að nútímavæðast. Horfa þarf til annarra landa og læra af því sem aðrir eru að gera vel og forðast það sem þeir eru ekki að gera vel. Verum ekki að horfa alltaf á Ísland sem eyland,“ segir Margrét.

Henni leist í fyrstu ekkert á að taka að sér formannsembættið. „Það er alltaf brjálað að gera, en ég var beðin um að gefa kost á mér, því Deloitte, þar sem ég var framkvæmdastjóri í 17 ár, var eitt af þjónustufyrirtækjunum í samtökunum og það var mikil umræða um að eðlilegt væri að þjónustan kæmi af auknum þunga að samtökunum. Auðvitað er svo SVÞ hluti af Samtökum atvinnulífsins sem eru með samningsréttinn, og ég hafði sterkar skoðanir á því hve allt of há launatengdu gjöldin eru. Starfsfólkið áttar sig oft ekki á þessum auknu álögum á atvinnulífið, sérstaklega finnur unga fólkið ekki mikið fyrir því að mótframlagið í lífeyrissjóðina hækkaði sem liður í Salek-samkomulaginu. Svo hækkaði tryggingagjaldið mikið eftir hrun, þannig að minna situr eftir í launaumslaginu.“

Eins og fram kom í samtali Viðskiptablaðsins við Helga Vilhjálmsson í Góu fyrir nokkrum vikum, fær starfsmaður með hálfa milljón króna í útborguð laun að lokum ekki nema um helmings launakostnaðar fyrirtækisins við að hafa starfsmanninn í vinnu. „Ég hefði því viljað sjá betri árangur með launatengdu gjöldin, þó auðvitað hafi tryggingagjaldið lækkað örlítið, en ekki eins og það átti að gera,“ segir Margrét sem hefur þó náð töluverðum árangri.

Of flókið kerfi

„Við náðum nokkrum af markmiðum okkar, til dæmis afnámi almennra vörugjalda, sem gátu verið alveg 15 til 25%. Þetta var svo flókið kerfi að meira að segja verslunareigendur skildu þetta varla. Ég get nefnt dæmi um fáránleikann í þessu sem kom fram í skýrslu sem gerð var áður en ég kom inn. Þannig var til dæmis munur á því hvort þú ristar brauðið þitt í brauðrist eða samlokugrilli, því samlokugrillið var með vörugjöldum, en ekki brauðristin.“

Margrét segir vörugjaldakerfið hafa valdið því að ýmis minni tæki seldust lítið hér innanlands, því allir nýttu tækifærið til að versla í ferðum erlendis. „Það var til dæmis miklu minna um það að fólk væri með fleira en eitt sjónvarp á heimilum, því það kostaði annan handlegginn. Eftir afnám vörugjalda unnum við að því að fá fellda niður tolla af fötum og skóm, því á þessum tíma var fólk að koma heim með heilu ferðatöskurnar. Þetta var alveg séríslenskt fyrirbrigði, að fólk fór í helgarferðir bara til að versla. Auðvitað gerir fólk það enn þá en á þessum tíma var þetta svo ýkt, því þú keyptir svona hluti varla hérna heima,“ segir Margrét, en síðan hafa tollar af öllum vörum nema hluta af matvöru verið felldir niður.

„Ríkið fékk ekkert vaskinn af þessari verslun, þannig að það sá sér leik á borði að auka við verslun hérna heima og fá þá frekar virðisaukaskattinn í tekjur. Þetta leiddi líka til þess að stórar keðjur eins og Costco og H&M voru tilbúnar að koma hingað, því fyrir sögðu þær að enginn séns væri fyrir þær að koma því vöruverðið yrði svo fáránlegt. Það hefur síðan verið sagt að þessi lækkun hafi ekki skilað sér í vasa neytenda, heldur bara til verslunareigendanna, en forsætisráðuneytið fékk Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að kafa ofan í tölurnar. Niðurstaða þeirra er að það lækkaði ekki einungis því sem nam afnámi vörugjaldanna og niðurfellingu tolla, heldur meira, en af hverju? Jú, því þegar verslunareigendur selja meira, þá dreifist fastakostnaðurinn eins og húsaleiga, starfsfólkið og þess háttar á fleiri vörur.“

Margrét segir breytingarnar hafa gert íslenskri verslun betur kleift að bregðast við aukinni netverslun. „Þó að það sé ekkert eðlilegra en að versla líka í útlöndum, þá viljum við ekki að Ísland verði Suðureyri við Súgandafjörð. Þar voru áður tvær dagvöruverslanir, en í dag er þar engin, bara sjoppa sem selur fáeinar dagvörur með,“ segir Margrét.

„Ef íslensk verslun nútímavæðist, og nær að nýta stafrænu umbreytinguna til að gera allt utanumhald ódýrara, þá verður skilvirknin meiri. Hvort sem það heitir í vörustjórnun, veltuhraða og mælingum á henni og auknum fókus á hvað bjóða eigi upp á, þá getum við dregið úr kostnaði og aukið þjónustuna, sem svar við samkeppni frá erlendum netrisum. Þarna kemur einnig menntunin inn, en hagsmunasamtök eins og SVÞ þurfa að vera mjög dugleg að fylgjast með nýjungum og hjálpa til við að koma þeim inn. Það gerum við með símenntun, sem við höfum verið að gera gríðarlega mikið af.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .