Verslanir á Íslandi tapa yfir 3.000 milljónum króna á ári vegna þjófnaða starfsmanna og viðskiptavina, að því er fram kemur í fréttabréfi SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu, en vegna þjófnaða þurfa verslunareigendur að hækka vöruverð til að mæta kostnaði sem hlýst af þeim.

Þá kemur fram að áhrif þjófnaða á neysluvísitölu hækkar vísitölutryggð lán um u.þ.þ 150 milljónir á ári.

Í fréttabréfinu kemur einnig fram að mikið álag er á öryggisvörðum í verslunarkjörnum og verslunum vegna þjófnaða. Ljóst er að mikill tími og fyrirhöfn fer í meðferð mála bæði hjá verslununum sjálfum og hjá lögreglu. Lítil aðstaða er víða í verslunum til að bíða með þjófa þar til lögregla kemur á staðinn og ljóst að dýrmætur tími starfsmanna og lögreglu fer til spillis. Öryggisverðir segja að þjófnaður hafi aukist mikið í krónum talið og séu orðnir skipulagðari en fyrir nokkrum árum. Einnig sé munur á kynjunum þar sem karlar stela færri og dýrari hlutum, en konur fleiri og ódýrari.