Verulega dró úr fjölda þeirra fyrirtækja sem tekin voru til gjaldþrotaskipta í fyrra miðað við árið á undan. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag, að útlit sé fyrir að nú sjái loks til lands í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem atvinnulífið hefur verið í frá hruni. Um 37% fyrirtækja sem fóru í þrot voru í byggingarstarfsemi og smásöluverslun. Á móti voru flest nýskráðu fyrirtækin í verslun og fasteignaviðskiptum á fyrstu ellefu mánuðum nýliðins árs.

Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs voru 977 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta samanborið við 1.441 fyrirtæki á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2011. Samdrátturinn nemur rúmum 32% á milli ára. Greining Íslandsbanka tekur fram að í nóvember síðastliðnum hafi 66 fyrirtæki verið tekin til gjaldþrotaskipta en 132 fyrirtæki verið nýskráð á móti. Hlutfallslega voru gjaldþrotin 45% færri á milli ára. Á hinn bóginn fækkaði nýskráningum um 34 á milli ára.