Versnandi efnahagshorfur, lakari lánskjör og aukin svartsýni neytenda virðist nú loksins hvetja heimilin til að herða beltin og sýna aðhald í neyslu eftir mikla neyslugleði undanfarna mánuði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Samkvæmt tölum Seðlabankans nam greiðslukortavelta í febrúar rúmum 57 milljörðum króna. Þar af nam innlend velta um 52 milljörðum, en samanborið við febrúar 2007 jókst veltan um 0,3% að raunvirði, miðað við vísitölu neysluverðs ásamt leiðréttingu fyrir breytingum í gengi krónunnar.

Veltuaukningin nú í upphafi árs er umtalsvert minni samanborið við þróunina á síðari helmingi síðasta árs, en greiðslukortavelta gefur ágæta vísbendingu um þróun einkaneyslu, segir í Morgunkorni Glitnis.