Hlutabréf vestanhafs féllu í verði í dag, í fyrsta skipti í fjóra daga. Helstu ástæður lækkunarinnar eru taldar vera neikvæðar hagnaðarspár fjármálastofnana.

Standard & Poor's 500-vísitalan og Dow Jones féllu um 0,9%. Nasdaq-vísitalan féll litlu minna, eða um 0,7%. Samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg féllu tvö hlutabréf í verði fyrir hvert sem hækkaði.

Citigroup leiddi lækkun fjármálafyrirtækja í Dow Jones eftir tilkynnt var um að stærsta ársfjórðungslega tap bandarískra banka yrði fjórum sinnum stærra en áður var ætlað. Tæknifyrirtæki lækkuðu einnig duglega eftir að nýjar tölur sýndu að spurn eftir tækjabúnaði hefur aldrei minnkað jafnmikið.

Hlutabréf í Evrópu lækkuðu einnig í dag, en asísk hlutabréf hækkuðu hins vegar fjórða daginn í röð.

Olíutunnan hækkaði um 3,39% í verði og kostaði rétt tæpa 104 dollara við lokun markaða í Bandaríkjunum.