Nú liggja fyrir niðurstöður úr ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup á stöðu og framtíðarhorfum hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins. Könnunin var gerð fyrir Samtök atvinnulífsins. Eru niðurstöður mun lakari en í samsvarandi könnunum undanfarin misseri. Þegar könnunin var gerð töldu um 42%  stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar, en í samsvarandi könnun fyrir ári síðan taldi um 74% stjórnenda að aðstæður væru góðar.

Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru aðstæður mun lakari og fer óvissa um framtíðarhorfur vaxandi. Aðeins um 16% þátttökufyrirtækja búast við að aðstæður verði þá betri, um 41% búast við óbreyttum aðstæðum, en um 44% vænta verri aðstæðna. Þá fer umframeftirspurn eftir starfsfólki minnkandi. Vöxtur innlendrar eftirspurnar dregst saman, en meiri bjartsýni gætir um eftirspurn á erlendum mörkuðum. Stjórnendur fyrirtækjanna spá að meðaltali 3,6% verðbólgu næstu 12 mánuði.

Tekið skal fram að könnunin var gerð á tímabilinu 27. nóvember til 18. desember, en síðan þá hafa aðstæður á fjármálamörkuðum versnað verulega og lækkaði til dæmis úrvalsvísitalan um u.þ.b. 12% frá 19. desember til 11. janúar.