Erlendu ferðafólki á Íslandi fækkaði meira í janúar en ný ferðamannaspá Isavia gerði ráð fyrir. Sökum mikillar skekkju sendi Isavia frá sér tilkynningu þar sem tilgreindar voru ástæður þess að spáin fór talsvert út af sporinu nokkrum dögum eftir að hún var birt. Meðal skýringa sem gefnar eru á þessari skekkju, er sú að sætanýting í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli í janúar hafi lækkað úr 78% niður í 74% miðað við sama tíma í fyrra. Túristi greinir frá þessu.

Slíkar nýtingatölur hefur Isavia ekki gefið út áður en það gera íslensku flugfélögin hins vegar í hverjum mánuði. Samkvæmt þeim þá stóð nýtingin hjá Icelandair nánast í stað í janúar og var rétt um 72% . Hún lækkaði hins vegar talsvert hjá Wow air, úr 88% í 80% í samanburði við janúar í fyrra . Aukið vægi Icelandair í umferðinni um Keflavíkurflugvöll og þunnskipaðri þotur hjá Wow air skýra að mestu leyti af hverju sætanýtingin í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli lækkaði um 4% í janúar.

Erlendu flugfélögin eiga erfiðara með að selja lausu sætin til Íslands

Samkvæmt frétt Túrista verður þó ekki horft fram hjá því að ofannefndar tölu gefi vísbendingu um að erlendu flugfélögin eigi orðið erfiðara með að selja lausu sætin í ferðir sínar til Íslands. Miðað við talningar Túrista á vægi íslenskra og erlendra flugfélaga í flugumferðinni um Keflavíkurflugvöll og fyrrnefndar nýtingatölur má reikna út að sætanýting erlendu flugfélaganna hefur líklega fallið um 3 til 5% í janúar og endað í kringum 71-73%.

Flugfélög eins og Finnair, Lufthansa og British Airways, sem byggja t.d. Íslandsflug sitt á tengifarþegum, m.a. frá Asíu, geti sætt sig við að fljúga hingað til lands með nokkuð af tómum sætum. Lággjaldaflugfélög geri hins vegar kröfu um þéttskipaðar þotur og það er áhyggjuefni ef nýtingin hjá þeim hefur lækkað verulega.

Það séu lággjaldaflugfélögin easyJet, Wizz Air og Norwegian sem stóðu undir nærri þremur af hverjum fjórum áætlunarferðum erlendra flugfélaga hingað til lands í síðasta mánuði, og það sé þekkt að flugfélög eins og þessi skera oftast fyrst niður lengri flugleiðir þegar kemur að því að hagræða. Forsvarsmenn Norwegian hafi til að mynda boðað þess háttar aðgerðir og hættir félagið Íslandsflugi frá Róm í lok mars.

Túristi tekur þó fram að hafa verði í huga að útreikningarnir hér að ofan byggi ekki á fullkomnum upplýsingum enda sitji Isavia á þeim. Samanburður á sætanýtingatölu flugvallar og flugfélaga sé einnig takmörkunum háður. Flugfélög miða við fluglengd þegar þau reikna út nýtingahlutfall en það gerir Isavia ólíklega þegar félagið reiknar út nýtingu í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli. Það verði hins vegar ekki horft framhjá því að teikn séu á lofti og við þær aðstæður væri kostur ef Isavia myndi deila frekari gögnum. Forstjóri Isavia kjósi frekar að óttast „miklu, miklu verri niðurstöðu" í einrúmi .

Segir Túristi að stjórnendur Isavia gætu tekið kollega sína í Kaupmannahöfn sér til fyrirmyndar en í gær hafi flugvöllur borgarinnar birt sitt mánaðarlega uppgjör þar sem fram komi hvernig fjöldi farþega þróaðist á 10 fjölförnustu flugleiðunum . Þess háttar uppgjör hafi Danir birt um árabil.

Þá segir í fréttinni að Túristi hafi kært þennan upplýsingaskort varðandi flugumferð síðastliðið vor til úrskurðarnefndar upplýsingamála, en málið hafi ekki enn verið tekið fyrir. Forsvarsfólk bæði Icelandair og Wow air hafi veitt beiðni Túrista neikvæða umsögn þegar Isavia ráðfærði sig við félögin í kjölfar kærunnar.