Samkvæmt nýjum tölum sem birtar voru í gær mælist tólf mánaða verðbólga í Bandaríkjunum nú 4,3% en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,4% í janúar sem var meiri hækkun en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Í Morgunkorni Glitnis segir að þessi hækkun skýrist einkum af verðhækkun á matvælum, eldsneyti og heilbrigðisþjónustu. Vísitala neysluverðs að frátöldu matvælaverði og eldsneytisverði hækkaði um 0,3% á milli mánaða og er það mesta hækkun sem sést hefur vestanhafs í sjö mánuði. Matvara hækkaði um 0,7% milli mánaða sem er mesta hækkun í tæpt ár. Aukin verðbólga í Bandaríkjunum er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þess að flest bendir til að nú dragi úr vexti í hagkerfinu og atvinnuleysi fari hækkandi. Seðlabanki Bandaríkjanna birti nýja þjóðhagsspá í gær og hefur hagvaxtarspá bankans verið endurskoðuð niður á við vegna erfiðleika á húsnæðismarkaði og skerts aðgengis að lánsfé. Þá býst Seðlabankinn við meira atvinnuleysi en áður og spáir að atvinnuleysi verði rúmlega 5% á þessu ári.

Erfið sigling framundan fyrir bandaríska seðlabankann

Þær aðstæður sem nú ríkja í hagkerfinu vestanhafs munu gera Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, erfitt fyrir næstu misserin enda vandasamt að reka peningamálastefnu sem þarf samtímis að huga að vaxandi verðbólguþrýstingi og auknu atvinnuleysi. Eins og kunnugt er hefur Seðlabanki Bandaríkjanna lækkað vexti um 1,5 prósentustig frá áramótum til að bregðast við versnandi hagvaxtarhorfum, erfiðleikum á húsnæðismarkaði og óróa á hlutabréfamörkuðum. Á sama tíma og vextir hafa farið lækkandi hefur matvæla- og eldsneytisverð farið hækkandi og hefur Seðlabankinn hlotið ámæli fyrir að hafa kynt undir verðbólgunni með aðgerðum sínum. Greiningaraðilar búast við að vextir komi til með að lækka enn meira og gera ráð fyrir að 0,5 prósentustiga lækkun í næsta mánuði, en stýrivextir eru nú 3% í Bandaríkjunum samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.