Olíusjóðurinn norski, sem nú kallast norski ríkislífeyrissjóðurinn, tapaði 160 milljörðum norskra króna á fyrsta ársfjórðungi. Sú tala jafngildir 2.300 milljörðum króna, en þetta er lakasta afkoma í sögu sjóðsins frá stofnun hans árið 1998.

Norska krónan hefur styrkst talsvert gagnvart öðrum gjaldmiðlum á árinu og hefur það sitt að segja. Greiningardeild Kaupþings segir eignir sjóðsins hafa numið 1.946 milljörðum norskra króna í lok mars og hafa þær lækkað um 3,6% frá ársbyrjun.