Arion banki gaf í gær út sína fimmtu neikvæðu afkomuviðvörun vegna ársins 2019 og þá sjöttu frá því bankinn var skráður á markað sumarið 2018. Hagnaður bankans lækkar úr 7,8 milljörðum í um 1 milljarð króna á milli ára 2018 og 2019.

Arðsemi bankans hefur farið lækkandi undanfarin ár. Arðsemin 2017 var 6,6%, 2018 var hún 3,7% og nú stefnir í að arðsemin verði innan við 1% sem er vel undir markmið bankans um 10% arðsemi á ári. Í september var hundrað starfsmönnum bankans sagt upp, mestu uppsagnir frá því að bankinn var endurreistur. Kostnaður vegna þessa var um 650 milljónir eftir skatta en stefnt var að því endurskipulagningin myndi bæta rekstur bankans um 1,3 milljarða króna á ári. Stóru aföllin hafa hins vegar verið mun meira áberandi í rekstrinum.

Verðmæti Valitor lækkað um helming á einu ári

Stærsta afskriftin á árinu starfar af Valitor en bókfært virði félagsins hjá Arion banka hefur lækkað um átta milljarða króna á einu ári. Valitor hefur verið til sölu frá því í nóvember 2018. Í árslok 2018 var bókfært virði þess 15,8 milljarðar króna en hafði lækkað í 11,7 milljarða í lok september á 2019. Í gær tilkynnti Arion að fjórir milljarða króna til viðbótar yrðu afskrifaðir vegna félagsins. Út frá því má áætla að bókfært virði Valitor hjá Arion banka sé tæplega 8 milljarðar króna sem er helmingi lægra en það var fyrir ári.

Hvert vandræðamálið rekið annað

„Arion banki er farinn að minna á Sambandið,“ sagði Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningar hjá Capacent í október í ljósi þess að bankinn rak kortafyrirtæki, kísilver og ferðaskrifstofur. Allar þessar eignir eru enn til sölu.

Félagið endaði með kísilver United Silicon í fanginu, sem aðallánveitandi félagsins, eftir að það fór í greiðslustöðvun í ágúst 2017 og svo í gjaldþrot í janúar 2018. Síðan þá hefur verið reynt að laga verksmiðjuna og fá starfsleyfi fyrir henni á ný. Kísilverð er hins vegar sögulega lágt nú um stundir og verið að loka kísilverum víða um heim, líkt og fram kom í afkomuviðvörun bankans í gær. Arion banki hefur lækkað bókfært virði kísilversins um 3,8 milljarða króna á síðustu fjórum mánuðum.

Næsta stóra mál á árinu 2018 var gjaldþrot Primera Air sem kostaði bankann á anna milljarð króna samkvæmt afkomuviðvörun sem gefin var út í byrjun október 2018. Síðasta sumar tók bankinn einnig yfir ferðaskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera samstæðunni eftir að þeim tókst ekki að standa í skilum af afborgunum lána. Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera Air, hefur látið hafa eftir sér að flugfélagið hefði lifað hefði það fengið brúarlán frá Arion banka.

Á sama tíma og Primera Air féll réri Wow air lífróður en Arion banki var viðskiptabanki flugfélagsins. Bankinn lánaði Skúla Mogensen persónulega á fjórða hundruð milljóna til að taka þátt í skuldabréfaútboði Wow í september 2018. Wow fór í þrot í mars 2019 og lýsti Arion banki 3,8 milljarða króna kröfum í þrotabúið.

Vandi Valitor

Þá var Valitor dæmt í apríl 2019 til að greiða Sunshine Press Productions (SSP) og Datacell, rekstrarfélagi Wikileaks, 1,2 milljarða króna í bætur. Á síðustu mánuðum ársins var ákveðið að stokka upp rekstur Valitor. Meirihluta stjórnarmanna var skipt út og framkvæmdastjórum var fækkað úr 10 í 4. Þá var 90 starfsmönnum innan samstæðunnar sagt upp. Mest af afskriftum í tengslum við Valitor má skrifa á svokallaða alrásarlausn (omni-chanel solution) sem Valitor hefur lagt um 6 milljarða í að þróa frá árinu 2014 og markaðssetja átti til stórra viðskiptavina erlendis. Félagið virðist nú vera að gefast upp á þeirri lausn, en áætlaðar tekjur af henni voru um 1,1 milljarður króna árið 2019, en velta Valitor í heild var um 20 milljarða króna.