Síðasta ár var það versta í sögu Stofnfisks hf. en þá varð 65,5 milljóna kr. tapi af 257 milljóna kr. veltu félagsins Að sögn Vigfúsar Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Stofnfisks, hafa frá miðju ári 2003 hafi dunið yfir félagið meiri erfiðleikar en samanlagt í 15 ára sögu þess. Vigfús sagði að enn gætir áhrifa innflutningsbanns á hrogn til Írlands og Skotlands, sem sett var til höfuðs Stofnfiski, vegna þess að íslensk stjórnvöld hirtu ekki um að lögleiða reglur um innflutning eldisfisks, sem þau höfðu skuldbundið sig til með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Því hefði áratuga markaðsstarf farið í rúst á skömmum tíma, sagði Vigfús við Viðskiptablaðið.

Í frétt í blaðinu í dag kemur fram að Vigfús vill þó ekkert segja um hugsanlega málshöfðun á hendur stjórnvöldum vegna tjónsins en sagði að félagið hefði áskilið sér rétt til að skoða rétt sinn með tilliti til bótakrafna. Engin ákvörðun þar um hefði verið tekin þar um.

Á undanförnum 2-3 árum hafa mörg eldisfyrirtæki orðið hart úti vegna lágs verðs á laxi, sem aftur hefur stafað af taumlausum framboðsvexti í greininni. Stofnfiskur varð fyrir á þriðja tug milljóna kr. tapi, þegar stærsti hrognakaupandinn í Skotlandi var tekinn til gjaldþrotameðferðar síðastliðið sumar. Grunur um nýrnaveiki í einni af eldisstöðvum félagsins varð þess valdandi, að stöðin var sett í dreifingarbann, sem síðan leiddi til mikillar hækkunar á rekstrarkostnaði. Þá urðu mikil óútskýrð afföll af klakfiskinum rétt fyrir kreistingu auk þess sem hver fiskur gaf af sér minna magn af hrognum, svo að ekki var unnt að uppfylla fyrirliggjandi pantanir og grípa varð til skömmtunar.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.