Bjarnheiður Hallsdóttir var kjörin formaður Samtaka ferðaþjónustunnar ( SAF ) í lok marsmánaðar á síðasta ári. Bjarnheiður tók við formennskunni af Grími Sæmundsen , forstjóra Bláa Lónsins, sem hafði gegnt formannsstöðunni í fjögur ár. Bjarnheiður telur stöðu ferðaþjónustunnar hér á landi vera heilt yfir ágæta.

„Það hefur hægst aðeins á þessum gífurlega vexti sem hefur átt sér stað undanfarin ár,“ segir Bjarnheiður. „Samsetning ferðamanna hefur einnig tekið breytingum. Bandaríkjamenn eru langstærsti hópurinn sem kemur hingað og það hefur dregið töluvert úr fjölda ferðamanna frá Mið-Evrópu. Ástæðan fyrir því er sú að gengi krónunnar hefur verið mjög sterkt undanfarið og innlendur kostnaður sömuleiðis farið hækkandi, sem hefur skert samkeppnishæfni okkar á alþjóðlegum mörkuðum. Það eru markaðirnir í Mið-Evrópu sem eru verðnæmastir.

Það versta er að ferðaþjónusta á landsbyggðinni hefur þurft að líða nokkuð harkalega fyrir þetta, sem er þróun sem enginn vill sjá. Það hefur verið opinbert markmið að stuðla að því að ferðamenn ferðist í auknum mæli um allt landið – allt árið um kring. Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnugreinina í heild sinni, þjóðarbúið og auðvitað ferðþjónustuaðila á landsbyggðinni.

Staða flugfélaganna hefur einnig sett strik í reikninginn og valdið óöryggi og óþægindum fyrir atvinnugreinina. Það sér ekki enn alveg fyrir endann á því, en við vonum það besta og að framtíð Wow air verði tryggð. Góðar flugsamgöngur við landið eru forsenda þess að það sé hægt að reka ferðaþjónustu í landinu. Gengi krónunnar er þó farið að veikjast og ferðaþjónustan gleðst yfir því.

Við vonumst því til að 2019 verði ágætis ár. Það er þó nokkur tímatöf á verðbreytingum í ferðaþjónustu, þar sem verð eru gefin út með svo löngum fyrirvara. En það eru strax farin að sjást batamerki í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja, því um leið og krónan fer að veikjast þá fara ferðamenn að kaupa sér meiri þjónustu innanlands. Fyrirtækin hafa nú þegar tekið eftir því að þessi viðskipti eru farin að glæðast. Það hafa margir fundið fyrir því að reksturinn hefur verið þyngri en undanfarin ár og má segja að 2018 sé versta ár ferðaþjónustunnar síðan uppsveiflan hófst.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .