Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir verstu martröð íslensks seðlabankastjóra vera hrávöruverðbólgu sem svarað er með auknum launakröfum. Hann segir það vel hugsanlegt að þrálát og jafnvel aukin verðbólga erlendis muni valda aukinni verðbólgu hér á landi.

Ásgeir sagði á kynningarfundi Seðlabankans vegna 0,25 prósentustiga stýrivaxtahækkunar á miðvikudag að verðbólga ofan í stöðnun (e. stagflation) væri martröð allra seðlabanka, og vísaði þar til talsverðra verðhækkana úti í heimi vegna aukins kostnaðar sem rekja má til heimsfaraldursins. Framboðsvandræðin virðist ætla að verða langvinnari en gert hafi verið ráð fyrir.

Í samtali við blaðamann segir hann framboðsverðbólgu afar erfiða viðureignar, þar sem hækka þurfi vexti ofan í minnkandi framboð. „Við erum að einhverju leyti lent í því á fasteignamarkaðnum, það er ekki gaman. Martröð íslenska seðlabankastjórans er að fá hrávöruverðbólgu af stað og henni sé svo svarað með launahækkunum.“

Kjölfesta verðbólguvæntinga ræður næstu skrefum
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar vegna hækkunarinnar segir að verðbólguvæntingar virðist hafa tekið að hækka á ný þrátt fyrir að undirliggjandi verðbólga fari hjaðnandi. Of snemmt sé að segja til um hvort kjölfesta þeirra við markmið sé að veikjast, en Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sagði á kynningarfundinum það lykilatriði varðandi það hvernig bankinn muni bregðast við.

Ásgeir útskýrir það nánar: „Í sjálfu sér ættum við ekki að bregðast við hækkunum á olíuverði eða erlendu hrávöruverði, því við höfum ekki stjórn á því. Undantekningin er hins vegar ef verðbólguvæntingar fara að rísa. Það er alveg möguleiki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .