FTSE 100 vísitalan féll um 363 stig eða 5,2% frá mánudegi til föstudags og markar þar með verstu viku ársins í bresku kauphöllinni. Vísitalan er úrvalsvísitala 100 fyrirtækja í bresku kauphöllinni en ástæðan fyrir lækkuninni er talin eiga rætur að rekja alla leiðina til Kína.

Líkt og vb.is greindi frá í gær féll Caixin China General Manufacturine Purchasing Managers Index, vísitala sem mælir gengi kínversks framleiðslugeira úr 47,8 stigum í júlí niður í 47,1 stig eftir fyrstu þrjár vikurnar í ágúst og hefur ekki verið lægri í sex og hálft ár. Í kjölfarið lækkaði gengi verðbréfa í Kína, nágrannalöndum Kína og víðar. Dow Jones, Nasdaq og S&P 500 vísitölurnar í Bandaríkjunum féllu einnig um meira en 3% eftir að markaðir lokuðu í gær.

Aðeins eitt fyrirtæki á FTSE 100 vísitölunni hækkaði í gær en það var breska póstþjónustan Royal Mail sem hækkaði um 1,6%.