Úrvalsvísitala kauphallarinnar féll um 8,44% í tæplega 3,4 milljarða viðskiptum dagsins en um er að ræða mestu lækkun á einum degi frá endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir hrun. Alls lækkaði samanlagt markaðsvirði félaganna tuttugu á aðalista Kauphallarinnar um 93,4 milljarða og stendur nú 973 milljörðum. Þá hefur heildarmarkaðsvirðið lækkað um 281,2 milljarða frá því 21. febrúar sem var síðasti dagurinn áður en núverandi lækkunarhrina hófst.

Hlutfallslega nemur lækkun heildarmarkaðsvirðis 22,4% frá 21. Febrúar og það sama á við um úrvalsvísitöluna. Þá nemur lækkunin frá síðasta hágildi vísitölunnar þann 17 janúar 23,5%. Er því um að ræða fyrsta bjarnamarkað (e. bear market) á íslenska markaðnum frá hruni en hann er skilgreindur sem meira en 20% lækkun frá síðasta hágildi.

Alls lækkuðu bréf átján félaga af tuttugu í verði og nam lækkun fjórtán þeirra meira en 5%. Mest lækkuðu bréf Icelandair Group eða um 22,8% en þó námu viðskipti með bréf félagsins einungis um 128 milljónum króna en þau voru 227 talsins sem gerir meðalstærð viðskipta upp á ríflega 565 þúsund króna. Bréf félagsins hafa nú fallið um ríflega 50% það sem af er ári og hafa ekki verið lægri frá árinu 2011

Fyrir utan bréf Icelandair lækkuðu bréf Iceland Seafood um 14,7% í 88 milljóna viðskiptum, bréf Arion banka um 11,7% í 386 milljóna viðskiptum, bréf Festi um 11,2% í 233 milljóna viðskiptum og bréf VÍS um 10,6% í 41 milljóna viðskiptum. Lækkanir dagsins koma í kjölfarið á frekari útbreiðslu kórónuveirunnar auk þess að í nótt setti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna ferðabann til landsins frá Evrópu.

Kvika banki var eina félagið sem hækkað í viðskiptum dagsins eða um 0,63% í 271 milljóna viðskiptum. Hækkun er þó athyglisverð í ljósi þess að í fyrstu viðskiptum morgunsins höfðu bréf bankans lækkað um ríflega 14%.

Mest velta í viðskiptum dagsins var svo með Marel sem lækkuðu um 7% í 978 milljóna viðskiptum.