*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 3. febrúar 2020 14:31

Versti dagur í Kínamarkaði í 5 ár

Kínverskir hlutabréfamarkaðir lækkuðu um rétt ríflega 9% vegna áhrifa Wuhan veirunnar á fyrirtæki um tíma.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Hlutabréf í Kína hrundu í dag, fyrsta daginn eftir að markaðir opnuðu víða eftir langvarandi hátíðir í tilefni af nýju ári þar í landi. Ástæðan er mikið til rakin til áhrifa Wuhan veirunnar á viðskipti.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa fjölmörg fyrirtæki lokað eða hætt tímabundið viðskiptum, flugi og sendingum til og frá landinu. Dauðsföll vegna Wuhan veirunnar hafa náð 361 en meira en 17 þúsund manns hafa sýkst af veirunni.

Þannig lækkaði CSI 300 vísitalan í Shanghæ um 9,1% og er opnunin á markaðnum sögð sú versta í nærri 13 ár á vef FT. Í lok viðskiptadagsins hafði vísitalan lækkað um 7,9%, sem er mesta lækkun hennar á einum degi síðan í ágúst 2015.

Þar með er ekki öll sagan sögð því fjögur af hverjum fimm fyrirtækjum lækkuðu um 10%, sem er hámark leyfðrar verðbreytingar á einum degi í Kína. Þannig þurrkaðist út um 358 milljarðar dala af markaðsvirði í kauphöllinni í dag.

Gerðist þetta þrátt fyrir að kínverski seðlabankinn hafi blásið enn frekar í blöðru verðbólgunnar með örvunaraðgerðum sem dældu um 1.200 milljörðum Remninbi eða andvirði um 171 milljarða dala inn í fjármálakerfi landsins.

Er það jafnframt stærsta aðgerð bankans á einum degi frá árinu 2004. Innanlandsgengi gjaldmiðilsins, remnimbi, veiktist um 1,2%, niður í 7,0138 á móti Bandaríkjadal, sem er versti dagur fyrir gengið síðan tolladeilur Bandaríkjanna og Kína versnuðu í maí 2019. Aflandsgengið sem ekki er jafnháð reglum Kína, var 0,3% veikari eða 7,0168 á móti dalnum.

Stikkorð: Kína Kína kauphöll markaðir remnimbi