*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Erlent 11. júní 2020 19:15

Versti dagur síðan í mars

S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 5% í dag eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna birti dökka hagvaxtarspá í gær.

Ritstjórn
epa

Hlutabréfamarkaðir áttu sinn versta dag frá lægðinni í mars síðastliðnum vegna aukinna væntinga um aðra bylgju af Covid smitum og hagvaxtarspá sem Seðlabanki Bandaríkjanna birti í gær

S&P vísitalan, sem hafði hækkað um meira en 40% frá 23. mars síðastliðnum, hefur lækkað um tæp 5% það sem af er degi. Nasdaq vísitalan hefur lækkað um 4,5% og evrópska vísitalan Stoxx 600 hefur sömuleiðs lækkað um 3,8% í dag.  

Vix vísitalan, sem mælir væntar sveiflur á S&P 500 fyrir næstu 30 daga, hækkaði úr 27,28 punktum í 36,28 í dag sem er um 31,7% hækkun. 

Verð bandarískra ríkisskuldabréfa hækkuðu verulega þar sem fjárfestar leituðu í öruggari fjárfestingar. Ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisbréfa lækkaði um 0,073% og standa nú í 0,6755%. 

Sumir fjárfestar ákváðu að selja vegna ótta um að hlutabréfaverð hefðu hækkað of mikið á síðustu misserum en einnig vegna vaxandi áhyggja um nýja bylgju af smitum.  

„Þrátt fyrir að verstu fregnir af uppsögnum séu að baki þá getur fjölgun nýrra Covid smita í ríkjum líkt og Texas og Arizona stöðvað efnahagsbatann ef stjórnvöld bregðast ekki við,“ er haft eftir Ronald Temple, sjóðstjóra Lazard Asset Management, í frétt Financial Times

Donald Trump gagnrýndi Seðlabanka Bandaríkjanna á Twitter fyrr í dag. „Seðlabankinn hefur svo oft rangt fyrir sér. Ég fylgist einnig með tölunum og spái MUN betur fyrir en þeir. Þriðji ársfjórðungur verður mjög góður, fjórði ársfjórðungur frábær og árið 2021 verður eitt af okkur bestu árum.“

Stikkorð: S&P 500 Donald Trump Vix