*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 7. júlí 2020 18:19

Versti fjórðungur frá 2008 í aðsigi

Markaðsaðilar spá allt að 43,8% hagnaðarsamdrætti hjá S&P 500 félögunum, það væri mesti samdráttur milli ára síðan 2008.

Alexander Giess
Kauphöllin í New York var stofnuð 1792 og er stærsta kauphöll í heimi.
epa

Nú þegar annar ársfjórðungur 2020 er liðinn undir lok styttist í að fjárhagsupplýsingar liggi fyrir um fyrri hluta ársins. Greiningaraðilar spá allt að 43,8% hagnaðarsamdrætti hjá félögum innan S&P 500 vísitölunnar. Verði það raunin væri um að ræða mesta samdrátt hagnaðar milli ára síðan á fjórða ársfjórðungi 2008, þegar hann nam 69,1%. Yahoo finance segir frá.

Gangi spáin eftir munu met verða slegin, annars vegar hvað varðar hagnaðarsamdrátt og hins vegar hækkun á S&P 500 vísitölunni, á sama ársfjórðungi. Vísitalan hækkaði um rúmlega 20% á öðrum ársfjórðungi 2020, sem er mesta hækkun síðan 1998, eftir að hafa dregist saman um 20% á fyrsta ársfjórðungi.

Vísitölunni er skipt niður í ellefu geira en vænst er samdráttar í þeim öllum. Spáð er að tekjutap verði um 11,1% á sama tímabili og skýrir fastur kostnaður og fjármagnskostnaður að miklu leyti muninn á milli samdráttar í hagnaði og tekjum.

Tekið er fram að óvissan er gífurleg og skekkjumörk því mikil. Félög hafa verið í erfiðleikum með að gefa út mat á sínum eigin rekstri, en mörg hver hafa fengið undanþágu frá birtingu fjárhagsupplýsinga.

Hlutabréfaverð hækkar

Eftir að S&P 500 vísitalan lækkaði um 12,51% í marsmánuði hækkaði hún um rúmlega það í apríl og síðan 4,53% í maí.  Að svo stöddu stendur vísitalan í 3,173 stigum og hefur hækkað um rúm 5% síðasta árið en lækkað um rúm 2,6% það sem af er árs.

Þó nokkur félög hafa hækkað ríflega á árinu, þrátt fyrir að ætla megi að kórónufaraldurinn raski rekstur einhverra. Til að mynda hefur hlutabréfaverð Tesla hækkað um rúmlega 249% það sem af er árs, eða úr 430 dollurum á hlut í um 1.398. Bréf Apple hafa hækkað um 25% á þessu ári og bréf Amazon, sem aldrei hafa verið hærri, um 60%.

Íslenska úrvalsvísitalan OMXI10 stendur í 2074,62 stigum og hefur lækkað um 2,18% það sem af er árs. Bréf Icelandair hafa lækkað mest, um 76,69%, og bréf Heimavalla og Origo hækkað mest, 36,28% og 19,4%.

Ætla má að skuldabréfakaup Seðlabankans og lækkun stýrivaxta geti skýrt að einhverju leyti af hverju hlutabréfaverð hefur ekki lækkað meira en raun ber vitni. Í Bandaríkjunum hefur peningamagn í umferð (M1) aukist um 27,2% á árinu og stýrivextir lækkað úr 1,75% í 0,25% eða um 150 punkta. Hér á landi hafa stýrivextir lækkað úr 3% í 1% það sem af er árs, eða um 200 punkta, bindiskylda bankanna hefur verið lækkuð auk annarra aðgerða.