Lækkun mat- og drykkjarvara vegur gegn hækkun annara liða í vísitölunni og gæti þannig unnið gegn hækkun hennar á næstunni segir greiningardeild Landsbankans. Styrking krónunnar er nú þegar farin að hafa áhrif á verð innfluttra mat- og drykkjarvara. Áhrif styrkingar krónunnar koma þó með nokkurri töf inn í verðlag mat- og drykkjarvara, en ef miðað við þróunina að undanförnu má gera ráð fyrir að innflutt matvæli lækki um 4% í mars segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að innfluttar mat- og drykkjarvörur vega um 20% í mat- og drykkjarvöruliði VNV en í spánni gerum við ráð fyrir að lækkun liðarins í heild hafi um 0,2% áhrif til lækkunar vísitölunnar. Verðstríð lágvöruverslananna styður auk þess við þessa lækkun en um helgina tilkynnti matvöruverslunin Krónan um verðlækkanir og Bónus hefur þegar brugðist við. Vöruverð ýmissa vara í þessum verslunum hefur því lækkað síðustu daga en Greiningardeild Landsbankans áætlar að markaðshlutdeild lágvöruverðshluta matvælamarkaðarins sé í kringum 40%.