VERT markaðsstofa hefur gengið frá kaupum á hluta af auglýsingastofunni Expo af Festi. Með kaupunum meira en tvöfaldar VERT stærð sína og fer upp í 19 starfsmenn. Starfsmenn Expo voru 22 en um 12 þeirra munu fara til annarra starfa fyrir Festi og tengd félög. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sameinað fyrirtæki mun bera nafn VERT markaðsstofu. Expo var til húsa á Skemmuvegi í Kópavogi en starfsemin flyst nú yfir á Þóroddsstaði í Skógarhlíð þar sem VERT er með höfuðstöðvar sínar. Kaupverðið er trúnaðarmál á milli kaupanda og seljanda.

Festi, sem rekur verslanir eins og Krónuna, Nóatún, Kjarval, ELKO, Intersport og Bakkann vöruhótel, eignaðist auglýsingastofuna Expo í tengslum við kaup sín á nokkrum eignum Norvikur fyrr á árinu.

VERT markaðsstofa var stofnuð fyrir fimm árum af reynslumiklum markaðsmönnum sem stýrt höfðu markaðsmálum hjá nokkrum af stærstu fyrirtækjum landsins. Á meðal helstu viðskiptavina VERT eru Ölgerðin, Opin Kerfi, Heilsa, Allianz, Lýsi, Vistor, Microsoft, Kynnisferðir og Byko.

Hún er í eigu Stefáns Gunnarssonar, Harðar Harðarsonar og Halldórs Elvarssonar sem allir eru jafnframt starfsmenn stofunnar.