Segja má að verðtryggð íbúðalán hafi reynst lífeyrissjóðunum hvað bestur fjárfestingarkostur það sem af er ári. Samanlögð eign þeirra í útgefnum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og forvera hans annars vegar, og verðtryggðum sjóðfélagalánum hins vegar, nam 478 milljörðum króna í lok nóvembermánaðar síðastliðins.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis. Þetta samsvarar 28% af hreinni eign sjóðanna á þessum tíma. Hafði þessi eign aukist um tæp 29% að nafnvirði, en 10% að raunvirði frá sama tíma 2007. Hluti þessarar aukningar stafar raunar af nettókaupum sjóðanna á íbúðabréfum á tímabilinu, auk þess sem greiningardeildin telur hugsanlegt að útlán til sjóðfélaga hafi aukist.

,,Hins vegar hefur verðtryggingin reynst drjúg búbót á tímum verðbólguskots og verðfalls flestra annarra eignaflokka, auk þess sem ekki hefur þurft að afskrifa þessi skuldabréf enn sem komið er, ólíkt skuldabréfum banka og fyrirtækja," segir Greining Glitnis.