Samanburður helstu fjárfestingakosta leiðir í ljós að stutt verðtryggð skuldabréf gáfu hæsta nafnávöxtun á fyrri helmingi ársins eða 6%, segir greiningardeild Glitnis og bendir á að miklar sviptingar urðu á innlendum fjármagnsmarkaði á árinu og ber ávöxtun fjárfestingakosta þess merki.

?Ávöxtun langra verðtryggðra skuldabréfa fylgir fast í kjölfarið með 5,9% ávöxtun og meðalávöxtun peningamarkaðssjóða viðskiptabankanna skilaði 5,5% ávöxtun. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði hinsvegar um 1,1% á sama tímabili en sé miðað við heildarávöxtun vísitölunnar þá var afkoman jákvæð um 0,4%. Ávöxtun stuttra óverðtryggðra skuldabréfa var neikvæð um 2,7%. Breyting neysluverðsvísitölunnar frá upphafi til loka tímabilsins mælist 5,2%," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að gengi krónunnar lækkaði hratt undir lok fyrsta ársfjórðungs og stóð miðgengi hennar í 133,5 stigum í lok júní samanborið við lággildið 103,2 stig um miðjan janúar.

?Breyting í gengi krónunnar skilaði því ríflega 27% ávöxtun á eignir í erlendri mynt miðað við óvarða gjaldeyrisstöðu. Á sama tímabili hækkaði Evrópuvísitala Morgan Stanley (MSCI Europe Local) um 3,1% og heimsvísitala Morgan Stanley (MSCI World Local) um 1,8%. Ávöxtun erlendra eigna ber því höfuð og herðar yfir aðra helstu fjárfestingakosti íslenskra fjárfesta í uppgjöri fyrrihluta ársins," segir greiningardeildin.