*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. nóvember 2013 08:34

Veruleg áhætta í afnámi haftanna

Eatwell lávarður telur að Íslendingar hafi ákveðið árið 2008 að fresta greiðslufalli ríkisins til betri dags, sem enn væri ekki upp runninn

Ritstjórn
Micha Theiner

Traust og trúverðugleiki eru þau sjónarmið, sem helst bera að hafa í huga við afléttingu hafta og lausn snjóhengju erlends fjármagns í landinu. Til þess að svo megi verða er affarasælla að leita samninga en að láta hart mæta hörðu fyrir dómstólum. Þetta er mat hins virta hagfræðiprófessors Eatwells lávarðar við Cambridge-háskóla, sem slitastjórn Glitnis fékk til þess að vinna sjálfstætt mat á þjóðhagslegum áhrifum helstu álitaefna við endurskipulagningu þrotabús Glitnis. Niðurstöður sínar kynnti lávarðurinn á fundi í Lundúnum á þriðjudag.

Við mat sitt bar Eatwell lávarður saman skýrslur frá Seðlabanka Íslands, Krónuhópi kröfuhafa og slitastjórna Glitnis og Kaupþings og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, um þjóðhagslegt jafnvægi og afléttingu gjaldeyrishafta á Íslandi. Almennt taldi hann skýrslu Seðlabankans einkennast af skynsamlegri varfærni og að á hans vegum hefði hafist nauðsynleg gagnasöfnun, sem þó þyrfti að verða framhald á, helst í samvinnu við aðra aðila máls.

Lávarðurinn dró enga dul á að veruleg áhætta fælist í afnámi haftanna, aðallega vegna hugsanlegs gengisfalls, en hjá þeirri áhættu yrði tæpast komist. Hann komst svo að orði, að Íslendingar hefðu ákveðið árið 2008 að komast hjá greiðslufalli ríkisins og frestað þeim vanda til betri dags, sem enn væri ekki upp runninn. Þangað til varpaði hengjan hins vegar dimmum skugga á alla umræðu um efnahagsmál og stjórnmál, hún kæmi í veg fyrir eðlilega markaðsþróun, takmarkaði viðskiptatækifæri, hamlaði erlendri fjárfestingu og drægi sífellt og endalaust úr trúverðugleika hagkerfisins.

Eatwell lávarður er virtur hagfræðingur á alþjóðavísu. Hann er forseti Queens College við Cambridge háskóla, heiðursprófessor í fjármálastefnumótun við Cambridge háskóla og prófessor í hagfræði við Háskólann í Suður-Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann er höfundur á fjórða tug bóka og sjö tuga fræðigreina um hagfræði, hagræna stefnumótun og fjármál.

Stikkorð: Eatwell