Íbúðalánasjóður telur ljóst að lækkun verðtryggðra lána muni hafa veruleg áhrif á sjóðinn, sem sé kröfuhafi meirihluta þeirra lána sem frumvarpið taki til. Þetta segir í umsögn sem Íbúðalánasjóður sendi Alþingi vegna frumvarpa sem liggja fyrir Alþingi.

„Í almennum athugasemdum með frumvarpinu eru þessi áhrif ágætlega reifuð,“ segir í umsögninni. „Meðal annars kemur þar fram að aðgerðin er til þess fallin til lengri tíma að hafa neikvæð áhrif á tekjustreymi sjóðsins með minni vaxtatekjum. Á móti kemur að veðstaða mun væntanlega batna og vanskil munu lækka nokkuð, þar sem lækkun er fyrst ráðstafað til að greiða vanskil láns á 1. veðrétti og síðan til lækkunar á greiðslujöfnunarreikningi sé hann til staðar.“

Íbúðalánasjóður telur erfitt að áætla hvert umfang uppgreiðslna sjóðsins verði vegna aðgerðarinnar. „Þó er rétt að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því að leiðréttingarhluti lánsins sé tryggður með veði í fasteign skuldara og standi áfram á veðinu og því ekki víst að leiðréttingin sem slík verði hvati til sölu eignanna eða endurfjármögnunar þar sem veðstaða eignarinnar verður áfram sú sama.“