Veruleg fækkun, sér í lagi hlutfallslega séð, hefur orðið á makaskiptasamningum sem urðu mjög áberandi í kjölfar bankahrunsins samkvæmt Morgunkornum Íslandsbanka. Slíkir samningar voru orðnir vel yfir þriðjungur allra viðskipta á markaðnum um tíma, og þegar hæst lét frá mars til og með júní árið 2009 voru þeir á bilinu 40%-50% allra samninga á höfuðborgarsvæðinu. Nú í júlí síðastliðnum voru makaskiptasamningar innan við 6% þinglýstra kaupsamninga um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra síðan í apríl árið 2008. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hefur innan við tíundi hver samningur á höfuðborgarsvæðinu verið makaskiptasamningur en á sama tímabili í fyrra var yfir fimmti hver samningur makaskiptasamningur. Eins og við höfum áður fjallað um þá ætti fjölgun kaupsamninga og fækkun makaskiptasamninga að minnka verðsveiflur á íbúðamarkaði og vera meira lýsandi fyrir verðþróunina fasteignamarkaði enda minnka þá áhrif einstakra viðskipta á markaði og þar með flökt í gögnum Þjóðskrár sem tekur makaskiptasamninga út þegar verðþróunin er metin.