Alls fóru tæplega 58 þúsund erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð á tímabilinu 1. september til 13. október 2008 en á sama tímabili í fyrra voru þeir um 50 þúsund. Aukningin það sem af er hausti er því um 7300 erlendir gestir eða 14,5% að því er kemur fram í frétt frá Ferðamálastofu.

Samdráttur er hins vegar í brottförum Íslendinga, en á sama tímabili fóru 46.600 Íslendingar úr landi sem er 9,3% fækkun frá fyrra ári. Talningin er unnin á vegum Ferðamálastofu og nær yfir allar brottfarir og er vinnuafl sem fyrr inn í þeim.

Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá fjölgun frá þeim öllum nema N-Ameríku. Norðurlandabúum fjölgar um 11 prósent, Bretum um tæp 20 prósent og Evrópubúum um 37% og munar þá mestu um 63% aukningu Þjóðverja og 43% aukningu Frakka. Erfitt er að spá fyrir um þróunina á næstunni, en vonir manna standa til að markaðssókn á komandi vikum skili sér í auknum ferðamannafjölda