Ryanair birti í dag uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði rekstrarárs síns, eða tímabilið frá byrjun apríl til loka september. Mikil aukning er á flestum liðum milli ára. Mikil fjölgun varð á farþegum hjá Ryanair frá sama tímabili í fyrra. Félagið flutti nú 18 milljónir farþega samanborið við 14 milljónir árið áður sem er aukning um 29%. Þá jukust tekjur félagsins um 33% frá sama tímabili í fyrra og námu nú um 946 milljónum evra.

Hagnaður Ryanair á umræddu sex mánaða tímabili af reglulegum rekstri nam 237 milljónum evra sem er met hagnaður á þessum tíma hjá félaginu. Hagnaður sama tímabils í fyrra nam 201 milljón evra og er aukning nú því um 18%.

Athyglisvert er að skoða kostnað á hvert sæti hjá félaginu á tímabilinu. Sé litið fram hjá hækkun á eldsneytisverði lækkar kostnaður á hvert sæti um 7%, en að teknu tilliti til eldsneytisverðs er hækkun á kostnaði um 8%. Eldsneytiskostnaður félagsins hefur hækkað um 108% frá sama tíma í fyrra og nam 237 milljónum evra á tímabilinu. Þessi aukning á eldsneytiskostnaði hefur m.a. þau áhrif að hagnaður félagsins eftir skatta sem hlutfall af veltu lækkar á milli ára, er nú um 25% en var rúm 28% á sama tímabili í fyrra að því er kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka.

Forsvarsmenn Ryanair telja ekki ástæðu til sérstakrar bjartsýni á næstu sex mánuðum og ítrekuðu varfærnar áætlanir fyrir síðari helming rekstrarársins. Félagið reiknar með því að meðalfargjöld muni standa í stað á milli ára á þriðja fjórðungi rekstrarársins en lækka um 5-10% á síðasta fjórðungnum. Áætlun félagsins um 295 milljón evra hagnað á rekstrarárinu stendur óbreytt og lagðist það ekki vel í markaðsaðila. Gengi félagsins lækkaði um 3,29% í dag en frá áramótum hefur gengið hækkað um 28,95%.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka