Íslenskum umsóknum í rannsóknaáætlun Evrópusambandsins hefur fjölgað mikið, ekki síst í mannauðsáætlunina People að því er kemur fram í fréttabréfi Rannís. Umsóknarfrestur IAPP var 27. júlí og skemmst er frá því að segja að 15 umsóknir bárust með íslenskri þátttöku og þar af voru 11 með íslenskri verkefnisstjórn.

Síðastliðið vor stóðu Rannís og Rannsóknaþjónusta HÍ fyrir kynningarfundi á tækifærum í Industry-Academia (IAPP), sem er hluti mannauðsáætlunarinnar, en þar hefur íslensk þátttaka verið takmörkuð fram til þessa. Yfir 50 þátttakendur hlýddu á kynningu Graham Wilkie frá framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins auk þess sem Þórunn Rafnar greindi frá reynslu Íslenskrar erfðagreiningar á þátttöku í IAPP verkefnum. Markmiðið var að auka sókn íslenskra fyrirtækja og  stofnana í þetta verkefnaform, sem gengur út á vistaskipti vísindafólks milli rannsóknastofnana og háskóla annars vegar og fyrirtækja hins vegar.

Umsóknarfrestur IAPP var 27. júlí og skemmst er frá því að segja að 15 umsóknir bárust með íslenskri þátttöku og þar af voru 11 með íslenskri verkefnisstjórn. Tölurnar sýna hversu mikilvægt er að standa reglulega fyrir kynningarfundum, sérstaklega í ljósi þess að árið 2008 barst einungis ein IAPP umsókn með íslenskri þátttöku segir í fréttabréfinu. . Í desember verður ljóst hvort einhverjar þessara 15 umsókna hljóti styrk en gera má ráð fyrir að um 20% innsendra umsókna fái framgang. Aftur verður auglýst eftir umsóknum í IAPP verkefni á síðari hluta árs 2010 en umsóknarfresturinn hefur ekki enn verið ákveðinn.