Spurður um það hvort hann búist við því að sala bóka muni almennt fara minnkandi eða vaxandi á næstu áratugum segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Forlagsins, það vera erfiða spurningu.

„Eftir hrun glöddumst við þegar ekki varð hrun í sölu bóka. Við héldum þokkalega sjó. Velta bókaútgáfunnar fór þó minnkandi ár frá ári, en þó ekki jafn mikið og gerðist í mörgum öðrum vöruflokkum. Nú er hins vegar svo komið að flestir aðrir vöruflokkar hafa tekið við sér, búnir að finna sinn botn og viðspyrnu en sala bóka hefur enn farið minnandi, sem er mikið áhyggjuefni. Hækkaður virðisaukaskattur á bækur um síðustu áramót hjálpaði okkur ekki, þegar skatturinn fór úr 7% í 11%. Það kemur hins vegar auðvitað að því að við finnum botninn. Reyndar fer jólavertíðin vel af stað, hún lofar góðu og vonandi að við náum einhverri viðspyrnu.

Þú spyrð um næstu áratugi. Bókaútgáfa hefur tekið umtalsverðum breytingum á liðnum átta árum, eða frá því að Amazon kom á markað með Kindle. Ég held að það eigi eftir að eiga sér stað veruleg gerjun í bóksölu á næstu árum og óljóst hvort því muni endilega fylgja vöxtur eður ei en ljóst er að breytingatímabilinu er hvergi nærri lokið hvað varðar sölu bóka á næstu áratugum.“

Þú talar um að innkoma Amazon hafi breytt miklu. Er fyrirséð að Amazon verði áfram svona ráðandi í rafbókunum eða heldurðu að það muni kannski eitthvað breytast?

„Amazon og Apple hafa hvort tveggja verið ráðandi þegar kemur að sölu og dreifingu rafbóka og það sem verra er fyrir neytendur og aðra er að bæði þessi fyrirtæki keyra lokuð kerfi þar sem erfitt er að lesa keyptar rafbækur í þeim tækjum sem kaupendur kjósa sjálfir. Ég trúi ekki öðru en að það muni breytast.

Ég ber þetta stundum saman við tímabilið þegar til voru VHS og Betamax myndbandstæki en eitt kerfi varð að lokum ofan á. Ég trúi ekki öðru en að markaðurinn, neytendur, muni á endanum neita að taka þátt í lokuðum hagkerfum eins og þessi fyrirtæki bjóða upp á. Þá getur þetta breyst, og takið sem Amazon hefur á bókabransanum líklega minnkað.“

Ég ímynda mér að það sé sárt að sjá á eftir jafnvel vaxandi hluta framlegðarinnar fara til Amazon.

„Það fer bara eftir því hvernig menn semja og verðleggja bækurnar sínar. Sárast finnst mér að horfa á þetta í þessu lokaða hagkerfi og sjá Amazon, eins og í Bandaríkjunum, beita útgefendur valdi til þess að fá sitt fram. Það ber að óttast ef Amazon færi að sýna krafta sína með óeðlilegum hætti á íslenska bókamarkaðnum. En ég á nú ekki von á því að það gerist í náinni framtíð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .