Rekstrarhagnaður Jarðborana á fyrstu níu mánuðunum, fyrir fjármagnsliði og skatta, nam 554 milljónum króna en var 189 milljónir á sama tíma á síðasta ári. Rekstrartekjur Jarðborana fyrstu níu mánuðum ársins námu 2.680 milljónum króna, en voru 1.053 milljónir á sama tíma árið á undan. Þess skal getið að nú kemur velta dótturfélaganna Björgunar og Einingaverksmiðjunnar af fullum þunga inn í rekstur samstæðunnar en á árinu 2003 var eingöngu um að ræða borrekstur Jarðborana. Rekstrargjöld fyrirtækisins með afskriftum fyrstu níu mánuði ársins voru 2.126 milljónir, samanborið við 864 milljónir á sama tíma í fyrra.

Niðurstöðutala rekstrarreiknings var 320 milljóna króna hagnaður, en var 140 milljóna króna hagnaður á sama tímabili árið 2003.

Árshlutareikningurinn er kannaður af endurskoðendum félagsins og er sömu reikningsskila-aðferðum beitt og á árinu áður.

Eigið fé var 2.551 milljón 30. september s.l. og eiginfjárhlutfall er nú 35,8%.

Heildareignir félagsins voru 7.116 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins námu 4.565 milljónum.

Veltufé frá rekstri var 550 milljónir króna fyrir tímabilið en var 215 milljónir á sama tíma á síðasta ári. Veltufjárhlutfall er 1,4.

Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 794 milljónum króna.