Greiningardeild Íslandsbanka hefur sent frá sér nýtt verðmat á Flugleiðum. Niðurstaða verðmatsins er 35,1 ma.kr. sem jafngildir genginu 13,9 krónur á hlut. Síðasta gengi í viðskiptum með bréf félagsins í Kauphöll Íslands var 13,8 og mælum þeir með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í Flugleiðum.

"Ráðgjöf okkar til skemmri tíma, þ.e. næstu 3-6 mánuði, er að markaðsvega bréfin í vel dreifðum eignarsöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum. Þetta er breyting frá ráðgjöf okkar í upphafi ársins þar sem við mæltum með undirvogun á bréfum í Flugleiðum," segir í greiningu Íslandsbanka.

Síðasta verðmat þeirra á Flugleiðum var gert í júní 2003 og gaf verðmatsgengið 4,5. Ástæður hækkunar verðmatsins felast einkum í áhrifum nýrrar starfsemi á sviði fjárfestinga og útleigu, meiri vexti tekna, hærri framlegð og lækkun ávöxtunarkröfu til eigin fjár en hún var 16,7% en er 12,5% í nýju verðmati segir í skýrslu greiningardeidlar.