Ef MP banki og Straumur fjárfestingarbanki verða sameinaðir væri unnt að ná fram kostnaðarsamlegð sem nemur 666 milljónum króna á ári, samkvæmt fjárfestakynningu sem Straumur hefur kynnt ýmsum hluthöfum MP banka undanfarna daga. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Þar kemur einnig fram að hagnaður sameinaðs félags þegar slíkri samlegð væri náð, eftir sex til tólf mánuði, yrði 1.200 milljónir á ári og ávöxtun á eigin fé gæti aukist um allt að 10%. Fjárfestakynning Straums ber heitið „Project Snæfellsjökull“ og segir í henni að samlegðaráhrifin næðust að mestu með fækkun starfsmanna, en gert er ráð fyrir því að þeim fækki um 23 talsins. Jafngildir það um 21% af heildarstarfsmannafjölda sameinaðs félags.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku hefur Straumur eignast fimmtungshlut í MP banka, en fram kemur í Morgunblaðinu að á meðal stjórnenda og hluthafa MP banka sé litið á kaupin sem tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku. Um 70% hluthafa hafi strax í kjölfar kaupanna stillt saman strengi sína um að standa gegn samruna við bankann. Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, hafnar þeirri túlkun hins vegar alfarið.