Alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa 380 milljónir hluta í hlutafjárúboði Icelandair Group Holding hf. og var umframeftirspurn því 105%. Alls voru í boði 185 milljónir hluta á verðinu 27,00 krónur á hlut eða samtals krónur 4.995.000.000 að söluvirði, alls 18,5% af hlutafé félagsins að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í aðdraganda útboðsins voru seldir 180 milljónir hluta, eða 18 % í félaginu. Áður höfðu fjórir hópar fjárfesta keypt um 63,5% í félaginu. Að loknu útboðinu nú, þar sem 18,5% hlutafjár var selt, er því 100% hlutafjár Icelandair Group Holding hf. selt og hluthafar í félaginu alls um 1300 talsins.

Stjórnendur og starfsmenn Icelandair Group Holding hf. og dótturfélaga eiga nú yfir 6% eignarhlut í félaginu. Alls voru teknir frá 35 milljónir hluta í starfsmannahluta útboðsins sem hefði nægt öllum starfsmönnum til að kaupa þann hámarkshlut sem í boði var. Alls keyptu 669 starfsmenn í þessum hluta útboðsins. Þeir hlutir sem ekki seldust í þessum hluta útboðsins verða notaðir til þess að mæta umframeftirspurn í þeim hluta útboðs sem laut að fagfjárfestum eins og tilgreint er í útboðs- og skráningarlýsingu félagsins segir í tilkynningu félagsins.


Í útboði til fagfjárfesta voru til sölu 110.000.000 hlutir eða samtals 2.970 milljónir króna að söluvirði. Alls óskuðu fagfjárfestar eftir að kaupa fyrir rúmlega 8,100 milljónir króna að söluvirði. Erlendir fagfjárfestar keyptu 43% af því sem upphaflega var í boði til fagfjárfesta eða fjórðung alls sem í boði var. Erlendir fagfjárfestar eiga því 4,7% í Icelandair Group Holding hf. að loknu útboðinu. Markaðsviðskipti Glitnis í Reykjavík, Osló og Stokkhólmi unnu í sameiningu að þessu verkefni.


Í útboði til almennings voru 40.000.000 hlutir til sölu eða 1.080 milljónir króna að söluvirði. Alls bárust áskriftir fyrir 1.935 milljónir króna að söluvirði sem er 80% umframeftirspurn. Í samræmi við það sem kemur fram í skráningarlýsingu Icelandair Group Holding hf. var beitt niðurskurði á áskriftir sem leiddi til þess að fjárfestar fá 55,8% þeirrar fjárhæðar sem þeir óskuðu eftir.



Ljóst er að félagið mun nú uppfylla skilyrði um dreifingu og fjölda hluthafa sem eru skilyrði fyrir því að fá skráningu í Kauphöll Íslands. Gjalddagi greiðsluseðla er 11. desember 2006 og áætlað er að viðskipti með hluti félagsins hefjist í Kauphöll Íslands fimmtudaginn 14. desember 2006.