Hagnaður af rekstri Nýherja í fyrsta ársfjórðungi nam 26,5 mkr eftir skatta samanborið við 17,9 mkr tap í sama ársfjórðungi á síðasta ári. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir í ársfjórðungnum - EBITDA - var 40,7 mkr borið saman við 4,7 mkr í sama fjórðungi árið áður. Rekstrartekjur fjórðungsins námu 1.428 mkr en voru 1.330 mkr í sama ársfjórðungi árið áður og hækkuðu því um 16%. Vörusala jókst um 17% og þjónustutekjur jukust um 15% á milli fjórðunga.

Hlutfall EBITDA af veltu í fjórðungnum var 2,9% samanborið við 0,4% á sama tímabili árið áður. Launakostnaður, annar rekstrarkostnaður og afskriftir hækkuðu um 3% frá sama tímabili árið áður en starfsmönnum samstæðunnar fækkaði um 18 eða 6% milli ára. Gengishagnaður nam 12,1 mkr samanborið við 7 mkr gengistap á sama tímabili árið áður. Tap af rekstri dótturfélaga nam 6,2 mkr samanborið við 7,3 mkr tap fyrir sama tímabil í fyrra.

Á stjórnarfundi Nýherja hf. 22. apríl 2005 samþykkti stjórn félagsins árshlutareikning þess fyrir fyrsta ársfjórðung 2005. Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins. Árshlutareikningurinn er nú gerður samkvæmt nýjum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) sem fylgja ber samkvæmt reglum Kauphallar Íslands.

Vöxtur tekna var ágætur í ársfjórðungnum, og er góð eftirspurn eftir vörum og þjónustu á upplýsingatæknimarkaðnum. Hlutfall vergs hagnaðar af vörusölu hefur farið vaxandi, er nú 21,6% en var 18,8% á sama ársfjórðungi í fyrra.

Góð sala var á netþjónum, einkum á IBM Blade netþjónum sem náð hafa sterkri stöðu á markaðnum vegna tæknilegra yfirburða. Þá voru settir upp stórir z og iSeries netþjónar hjá nokkrum stærri viðskiptavinum. Áfram var góð sala á PC fartölvum, borðtölvum og tengdum búnaði

Reykjavíkurborg setti upp nýtt þjónustuver og tók þá í notkun fyrsta áfanga af AVAYA IP símstöð frá Nýherja, sem verður kjarninn í nýju símkerfi Reykjavíkurborgar

Undirritaður var samningur við Akureyrarbæ um að Nýherji innleiði SAP hugbúnaðarkerfi sem nái til alls rekstrar bæjarins. Verður í samvinnu við Akureyrarbæ þróuð Sveitarfélagalausn sem hentað getur mörgum sveitarfélögum á landinu. Þessi samningur ásamt öðrum nýlegum samningum gerir verkefnastöðu SAP viðskiptalausna mjög góða á næstunni. Ráðgjafar Nýherja á sviði Microsoft lausna hafa gert mikilvægan samning við Mjólkursamsöluna um umfangsmikla innleiðingu á Microsoft hugbúnaðarkerfum, t.a.m. CRM lausn sem gerir þeim betur kleift að samþætta sölu- og þjónustumál fyrirtækisins.

Nýtt stjórnskipulag Nýherja var innleitt 1. febrúar. Stofnað var sameiginlegt Sölusvið og afkomusviðum fækkað úr fimm í þrjú, Kjarnalausnir, Notendalausnir og Hugbúnaðarlausnir. Markmið breytinganna er að efla viðskiptatengsl og sölu fyrirtækisins, og einfalda aðgengi viðskiptavina að þjónustu Nýherja. Einnig verður þjónustuframboð samþætt enn meir, og aukin hagkvæmni næst í rekstri félagsins.

Horfur eru áfram ágætar á upplýsingatæknimarkaði og er gert ráð fyrir afkomubata frá fyrra ári.