Sölusprengingin á nýjum bílum í Kína virðist vera að fjara út. Að sögn AP er það talið áfall fyrir alþjóðlega bílaframleiðendur á borð við General Motors. Það fyrirtæki vonaðist til að aukin bílasala í Kína myndi vega upp samdrátt á öðrum markaðssvæðum. Var því spáða að bílasalan í Kína ykist um 20% á þessu ári, en það er samt mun minna en sú gríðarlega aukning sem varð á sölu nýrra bíla í Kína 2009. Þá jókst salan um 45%.

Samkvæmt tölum hinna ríkisreknu samtaka bílaframleiðenda í Kína, China Association of Automobile Manufacturers – CAAM,  voru framleidd samtals rúmlega 1,2 milljónir ökutækja í júlí og seld voru rúmlega 1 milljón ökutæki. Framleiðslan var samt sem áður 4,34% minni en í júní og salan var 6,7% minni. Í júlí 2009 voru seld 1,09 milljónir ökutækja sem var þá 64% söluaukning frá sama mánuði 2008.

Á fyrri árshelmingi 2010 seldust 7,18 milljónir nýrra ökutækja í Kína sem er 30,45% söluaukning frá fyrra ári. Þykja þessar tölur samt benda til að slaknað hafi snögglega á eftirspurninni en söluaukningin á fyrstu fimm mánuðum ársins nam 53,25%. Er sumarleyfum að einhverju leyti kennt um minni sölu. Ef júlí 2010 er tekinn inn í dæmið er söluaukningin komin niður í 17,18% á milli ára sem er talsvert minna en spár gerðu ráð fyrir.

Í maí jókst salan um 29,74% og fór í 1,19 milljónir ökutækja. Það er samt 120.000 færri ökutæki en voru framleidd í sama mánuði. Virðist því sem fækka fari sölumetunum í Kína, en í janúar sl. voru seld 1,66 milljón ökutæki í landinu sem var 124% aukning frá sama mánuði 2009. Í sama mánuði voru framleidd 1,61 milljón ökutæki og nam framleiðsluaukningin þá 143% miðað við janúar 2009.