Hagnaður olíuverslunarinnar N1 nam um 427,6 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er tæpum 200 milljónum krónum minna en á sama tíma í fyrra. Þá dró talsvert úr hagnaði fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins. Hann nam rétt um 1,1 milljarði króna samanborið við tæpan 6,1 milljarð á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Fram kemur í uppgjörinu að mismunurinn skýrist af rúmlega 4,8 milljörðum sem færðust til hagnaðar hjá N1 í fyrra.

Rekstrartekjur N1 jukust þrátt fyrir þetta á milli ára. Þær námu 46.748 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 42.213 milljónir í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir skatta, gjöld og afskriftir (EBITDA) nam 2.321 milljónum króna samanborið við 1.913 milljónir í fyrra. Fjármagnsliðir voru hins vegar neikvæðir um 245 milljónir króna í ár. Þeir voru jákvæðir um 262 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Þá kemur fram í uppgjörinu að bókfært verð eigna N1 nam 30.867 milljónum króna í lok september samanborið við 26.327 milljónir um síðustu áramót. Heildarskuldir og skuldbindingar námu 16.449 milljónum króna. Eigið fé var 14.418 milljónir króna sem er 1,1 milljarði meira en um áramótin. Þá var eiginfjárhlutfallið 46,7% í lok september.

Framtakssjóður Íslands er stærsti hluthafi N1 með 44,8%, Íslandsbanki á 26,3% og Lífeyrissjóður verslunarmanna 10%.

Uppgjör N1