Bandaríska stórblaðið Washington Post hagnaðist um 61,7 milljónr dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er samdráttur upp á 22% á milli ára. Hagnaður síðasta árs nam 116,2 milljónum dala samanborið við 277,2 milljónir árið 2010.

Washington Post er með þekktari dagblöðum heims og flaggar það 47 Pulitzer-verðlaunum fyrir fréttaskrif. Blaðamennirnir Bob Woodward og Carl Bernstein unnu hjá því þegar þeir fjölluðu um Watergate-málið á fyrri hluta áttunda áratugarins og áttu hlut að því að Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna, sagði af sér árið 1974.

Tekjur Washington Post námu 1,1 milljarði dala á fjórða ársfjórðungi sem er 10% minna en árið á undan. Fyrirtækið kom hins vegar ekki vel út úr árinu því tekjurnar, að einskiptikostnaði undanskildum, námu aðeins rétt rúmlega 190 milljónum dala í fyrra samanborið við 336,2 milljónir árið 2010. Tekjusamdrátturinn nemur rúmum 40% á milli ára.

Tekjur af rekstri blaðsins hafa látið undan síga auk þess sem hallað hefur undan fæti fræðsluhluta fyrirtækisins. Sjónvarpsstöðvahluti Washington Post gengur hins vegar ágætlega, að því er fram kemur í uppgjöri blaðsins. Fræðsluhlutinn er blaðinu drjúg tekjulind, þaðan koma 60% af árstekjum fyrirtækisins og vegur það upp á móti samdrætti í blaðaútgáfunni. Rekstrarhagnaður blaðsins nam 7,4 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi. Ári fyrr nam hagnaðurinn 19,9 milljónum dala og hljóðar samdrátturinn því upp á tæp 63% á milli ára.

Í umfjöllun blaðsins sjálfs um afkomuna segir að þrátt fyrir að lesendum blaðsins á Netinu hafi fjölgað þá hafi auglýsingatekjur blaðsins dregist samtals saman um 20%. Í ofanálag hefur áskrifendum að prentaðri útgáfu blaðsins fækkað á milli ára.