Hagnaður samstæðu Milestone ehf. fyrstu sex mánuði ársins 2006 nam rúmum 1,9 milljörðum króna eftir skatta, en á sama tíma í fyrra var hagnaður fyrirtækisins 4,1 milljarður króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Tap Milestone fyrir endurgreiðslu tekjuskatts nam 1.215 milljónum króna, en á sama tíma í fyrra var hagnaður félagsins 4.873 milljónir króna fyrir tekjuskatt.

Í ljósi þess að stór hluti eignasafnsins samanstendur af félögum sem skráð eru á markaði mótast afkoman af almennum markaðsaðstæðum. Að sama skapi hafa breytingar á gengi íslensku krónunnar haft áhrif á rekstur og efnahag félagsins, segir í tilkynningunni.

Helstu fjárfestingar tímabilsins voru þær að í byrjun maí keypti Milestone 33,4% hlut Glitnis í tryggingafélaginu Sjóvá og ræður þar með 100% hlutafjár í félaginu.

"Rekstur dótturfélaga er stöðugur og hagræðingarverkefni ganga samkvæmt áætlun. Jákvæð þróun hefur verið á helstu mörkuðum og eignasafn Milestone hefur nú þegar skilað góðri arðsemi frá miðju ári. Styrking íslensku krónunnar hefur einnig þegar haft jákvæð áhrif á rekstur og efnahag samstæðunnar," segir í tilkynningunni.