Finnski farsímaframleiðandinn Nokia tapaði 91 milljón evra, jafnvirði 15 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er mörgum sinnum minna tap en fyrir ári en tap fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi í fyrra nam 959 milljónum evra, jafnvirði næstum 160 milljarða íslenskra króna. Markaðsaðilar bjuggust við mun meira tapi en þetta eða upp á allt að 217 milljónir evra.

Samkvæmt uppgjöri Nokia námu tekjur fyrirtækisins 5.662 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi nú samanborið við 7.240 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Þetta er undir væntingum en búist hafði verið við allt að 5.850 milljóna evra hagnaði.

Nokia seldi 8,8 milljónir Lumia-snjallfarsíma á fjórðungnum sem keyra á Windows-stýrikerfinu frá Microsoft. Þeir hafa aldrei verið fleiri en til samanburðar voru þeir 7,4 milljónir talsins á öðrum ársfjórðungi og 2,9 milljónir á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Aukin sala dró talsvert úr rekstraratapi Nokia. Það nam 86 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi samanborið við 672 milljóna evra tap á sama tíma í fyrra.

Uppgjör Nokia verður hugsanlega eitt af þeim seinni í höndum núverandi eigenda er búið að samþykkja yfirtöku bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft á Nokia. Kaupverðið nemur 7,2 milljörðum evra, jafnvirði næstum 1.200 milljörðum íslenskra króna.