Brottflutningur frá landinu dróst verulega saman á milli ára í fyrra. Þá fluttu 6.276 úr landi sem er 10% samdráttur. Á móti fluttu 5.957 til landsins sem var 6,8% aukning á milli ára. Það jafngildir því að 319 fleiri fluttu frá landinu en til þess. Árið 2011 fluttust hins vegar um þrefalt fleiri frá því en til þess eða 1.404 umfram aðflutta.

Fram kemur í upplýsingum Hagstofunnar að íslenskir ríkisborgarar voru mun fleiri en erlendir í hópi brottfluttra, eða 4.066 á móti 2.210 erlendir ríkisborgarar. Íslenskir ríkisborgarar voru sömuleiðis í meirihluta aðfluttra, 3.130 á móti 2.827.

Flestir til Noregs og Póllands

Á árinu fluttust 3.015 íslenskir ríkisborgarar til Noregs, Danmerkur eða Svíþjóðar af 4.066 alls. Flestir fluttust til Noregs, eða 1.395. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu einnig frá þessum löndum eða 2.321 af 3.130 alls, flestir þó frá Danmörku, eða 1.132. Flestir hinna brottfluttu voru á aldrinum 20 til 24 ára.

Á sama tíma fluttust flestir erlendir ríkisborgarar til Póllands, eða 740 af 2.181 alls. Þaðan komu líka 886 erlendir ríkisborgarar. Þetta flutningsmynstur hefur haldist óbreytt frá því 2009, nema hvað Noregur hefur orðið hlutfallslega vinsælli meðal íslenskra ríkisborgara og dregið hefur úr vægi Póllands sem helsta áfangastaðar erlendra ríkisborgara.