Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hefur lagt fram til kynningar frumvarp um verðbréfaviðskipti sem felur m.a. í sér breytingar á reglum um yfirtökuskyldu í félögum. Breytingarnar fela meðal annars í sér að kveðið er skýrar á um tengsl aðila sem eiga ráðandi hluti í hlutafélögum. Frumvarpið tekur á mjög mörgum þáttum verðbréfaviðskipta og er líklegt að það hafi talsverðar breytingar í för með sér á íslenskum verðbréfa- og fyrirtækjamarkaði.

Það er verið að innleiða þarna þrjár tilskipanir Evrópuþingsins og Evrópuráðsins, sagði Valgerður í samtali við Viðskiptablaðið í gær. "Það er ein tilskipun um markaðssvik, ein um yfirtökutilboð og ein um útboðs og skráningarlýsingar."

Valgerður segir að með þessu sé mikið verið að skýra þær reglur sem fyrir voru og skýra ákvæði um hvenær yfirtökutilboð myndist. Slíkt geti myndast við samstarf og tengsla á milli aðila. Eru miklar skilgreininga á því í frumvarpinu, við hvaða kringumstæður slíkt gerist.

"Þá er þarna líka áhugavert mál er snýr að Fjármálaeftirlitinu. Það varðar heimild Fjármálaeftirlitsins til að birta opinberlega úrskurði sína og niðurstöður sem varða verðbréfamarkaðinn. Menn trúa því að þetta muni hafa varnaðaráhrif," sagði Valgerður Sverrisdóttir. Hún segir að þessum nýju reglum sé ætlað að bæta markaðinn hér á landi. Um leið er þetta liður í að innleiða samþykkt sem gerð var í Stokkhólmi 2001 þar sem lagðar voru línur um það hvernig þróa skyldi innri markað á þessu sviði.

Jóhannes Sigurðsson, prófessor við háskólann í Reykjavík segir að frumvarpið feli í sér að skýrar sé kveðið á um ýmsa þætti er varðar hvenær yfirtökuskylda myndast og um leið er hert verulega á ýmsum þáttum í reglunum. Mun strangari reglur væru settar varðandi það þegar menn hefðu yfirráð yfir félögum sem ættu hluti í skráðum félögum. Jafnvel gætu fjölskyldutengsl og samráð aðila leitt til þess að það væri túlkað svo að 40% mörkunum yrði náð þannig að yfirtökuskylda myndaðist.

Þá sagði Jóhannes að ýmislegt fleira væri áhugavert í þessu nýja frumvarpi. Við mat á samstarfi aðila er t.d. búið að setja sönnunarreglur. Ef t.d. er um að ræða hjón, sambúðaraðila, börn eða tengda aðila með öðrum hætti, þá er gengið út frá því í nýja frumvarpinu að um sé að ræða samráð þeirra á milli. Fólki er hins vegar gefinn kostur á að andmæla þessu, en verður þá að sanna með einhverjum hætti að ekki sé um samráða að ræða. Þá bendir Jóhannes á nýjan þátt í reglum hér varðandi það að stjórn félags er ætlað að gefa álit á yfirtökutilboði lík og menn þekkja af fréttum erlendis frá.