Á fjórða ársfjórðungi hafa einungis tvö af fimmtán félögum í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar hækkað í verði en þrettán hafa lækkað eins og bent er á í Hálffimm fréttum KB banka. Er þar miðað við lokagengi á markaði í gær. Þau félög sem hafa hækkað eru Opin Kerfi Group (5,1%) og Atorka (3,9%). Þau félög sem mest hafa lækkað eru hins vegar Actavis (-24,4%), Burðarás (-21,9%) og Samherji (-17,8%).

Þann 10. desember síðastliðinn birti Kauphöllin lista yfir þau félög sem koma til með að mynda Úrvalsvísitöluna frá og með 1. janúar til 30. júní á næsta ári. Sú breyting á samsetningu vísitölunnar sem mun eiga sér stað um áramótin er að Opin Kerfi Group og Grandi detta út en Flugleiðir og Kögun koma inn í þeirra stað. Þessi tvö félög hafa bæði hækkað það sem af er fjórða ársfjórðungi, Kögun um 8,8% og Flugleiðir um 5,6%.

Þrátt fyrir að flest félögin í Úrvalsvísitölunni hafi lækkað á síðasta fjórðungi ársins hefur árið í heild verið gott segir í Hálffimm fréttum KB banka. Einungis tvö félög í Úrvalsvísitölunni hafa lækkað á árinu en það eru Actavis (-8,6%) og Medcare Flaga (-4,8%). Atorka leiðir hækkanir ársins en gengi félagsins hefur hækkað um 239,3% frá áramótum. Þau félög sem næst koma Atorku eru Landsbankinn (108,9%), Straumur (100,2%) og KB banki (97,5%), sé miðað við lokagengi félaganna í gær.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.