Verulegir annmarkar eru á þeim rökum og ástæðum sem ríkisstjórn Bretlands hefur upplýst að legið hafi að baki þeirri ákvörðun að kyrrsetja eignir Landsbankans í Bretlandi og aðgerðin var ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem stefnt var að.

Hins vegar veitir ensk löggjöf stjórnvöldum mikið svigrúm og væri mjög erfitt að fá ákvörðun breskra yfirvalda hnekkt fyrir breskum dómstól.

Gildir þá einu hvort íslenska ríkið, eða aðrir sem hagsmuna eiga að gæta, höfða slíkt mál.

Þetta kemur fram í álitsgerð bresku lögmannastofunnar Lovells LLP sem stofan skilaði íslensku ríkisstjórninni veitt varðandi hugsanlega málsókn á hendur breska ríkinu.

Í álitsgerðinni kemur fram jafnvel þótt svo færi að breskur dómstóll myndi ógilda hina umdeildu ákvörðun yrðu mögulegar skaðabætur að líkindum ekki verulegar.

Lögmannastofan segir ákvörðun breskra stjórnvalda hins vegar vekja upp álitaefni er lúta bæði að Evrópurétti og mannréttindum.

Álitsgerðin er birt í heild sinni á vef forsætisráðuneytisins.