Icelandic Group hyggst á næstu vikum og mánuðum leita allra leiða til að bæta erfiða skuldastöðu sína og kemur veruleg grynnkun á eignasafni þess til greina, ásamt því að auka birgðaveltu til muna og draga úr birgðasöfnun í framhaldinu. Þessar aðgerðir eru næstu skref í aðhaldsaðgerðum og hagræðingu sem staðið hefur yfir hjá félaginu undanfarna mánuði.

"Við höfum tilkynnt það á undanförnum misserum að við séum að leita leiða til að lækka skuldastöðu félagsins samhliða umbótum í rekstri. Skuldastaðan er óneitanlega erfið og ekki ásættanleg og það liggur fyrir að grípa þarf til aðgerða til að rétta stöðuna. Sala fyrirtækja getur verið fljótvirk leið til að lækka skuldir," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group.

Mikil hagræðing staðið yfir

"Við munum fara í gegnum allar einingar okkar og velta við öllum steinum til að bæta reksturinn til langs tíma. Við höfum raunar staðið í miklum hagræðingaraðgerðum undanfarið eitt og hálft ár og síðustu vikur höfum við hert verulega í þeim efnum, en þurfum að taka frekar til hendinni í fyrirtækjasafni félagsins, og ein leiðin er útþynning á því. Þarna eru góðar eignir sem hægt er að selja og menn skoða sölu ef aðrar leiðir eru ekki færar. Sala á hlutabréfum í FPI á fjórða ársfjórðungi er liður í aðgerðum, svo og sala á USA-hluta Ocean to Oceon og fasteignum í USA í lok desember síðastliðnum. Einnig má benda á að unnið var að sölu Pickenpack og Pickenpack Gelmer sem gekk ekki eftir að þessu sinni."

Nefnir ekki dæmi um eignasölu

Björgólfur kveðst að svo stöddu ekki vilja nefna einstakar eignir sem til greina kemur að selja. Icelandic Group á fyrirtæki um víða veröld. Þar á meðal má nefna: Í Bandaríkjunum (Icelandic USA og til skamms tíma Ocean to Ocean), á meginlandi Evrópu (m.a. Pickenpack Gelmer SAS og Pickenpack H&H Seafood, Icelandic France, Icelandic Iberica, Icelandic Norway, Jeka Fish) , í Asíu (m.a. Icelandic China Trading, Dalian Three Star Seafood, Icelandic Asia, Icelandic Japan, BI Shipping, Icelandic Seafood Thailand) og á Englandi (Coldwater Seafood UK, Seachill og Icelandic UK).

"Félagið hefur lagt í miklar fjárfestingar mörg undanfarin ár"

Aðspurður um helstu ástæður fyrir versnandi hag fyrirtækisins undanfarin misseri og hvort farið hafi verið offari í fjárfestingum segir Björgólfur skýringar margþættar. "Félagið hefur lagt í miklar fjárfestingar mörg undanfarin ár, sérstaklega árin 2004 og 2005. Því miður hafa þær væntingar sem þeirri vegferð tengdust ekki gengið eftir sem skyldi og samtvinnun rekstrar þeirra verið tímafrekari en ætlað var. Rekstur félagsins hefur óhjákvæmilega tekið talsvert mið af mikilli aukningu skulda, ásamt því að mjög óhagstæð skilyrði hafa verið á mörkuðum. Má nefna að hráefnisverð hefur hækkað gríðarlega undanfarin misseri, eða um allt að 50% eftir tegundum.

Framlegð rekstursins hefur þó verið að þróast í rétta átt þrátt fyrir skuldastöðuna og þungar ytri aðstæður og ég vil benda á að skuldastaðan hefur batnað nokkuð á fjórða ársfjórðungi 2007. Vaxtaberandi skuldir í ársbyrjun voru um 564 milljónir evra en eru trúlega komnir niður í um það bil 510 milljónir evra í árslok, eða sem nemur lækkun upp á tæplega fimm milljarða króna á árinu."