Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarbæjar er jákvæð um 1.122 milljónir króna á árinu 2005 sem er verulega betri árangur en áætlanir gerðu ráð fyrir segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 952 milljónir króna samanborið við 727 milljónir króna árið 2004.

Frávik rekstrargjalda frá áætlun (án hækkunar lífeyrisskuldbindinga) er um 1,2% í A hluta og 1,4% í samenteknum A og B hluta. Tekjur hækka um 5,2% umfram áætlun í A hluta en um 6,3% í samanteknum A og B hluta.

Eigið fé í árslok var um 6 milljarðar króna og eykst um 1,1 milljarð króna. Eiginfjárhlutfallið hækkar úr 24% í 28% á milli ára. Heildareignir í árslok voru 21,4 milljarðar króna og aukast um 1,4 milljarða króna á árinu. Heildarskuldir í árslok voru 21,5 milljarðar króna og aukast um 1,4 milljarða króna. Erlendar skuldir A hluta sem stóðu í 7,4 milljörðum í árslok 2004 lækkuðu um 2,5 milljarða á árinu 2005 í tæpa 4,9 milljarða eða um 35%. Veltufjárhlutfall lækkar úr 0,8 árið 2004 í 0,55 árið 2005 aðallega vegna 1,4 milljarða viðbótar skuldfærslu á tekjum vegna gatnagerðar.

Veltufé frá rekstri var 1.034 milljónir króna á árinu 2005. Handbært fé nam 794 milljónir króna, fjárfestingarhreyfingar 1.637 milljónum króna og fjármögnunarhreyfingar 829 milljónum króna. Þannig lækkaði handbært fé um 14 milljónir króna og var 418 milljónir króna í árslok 2005.

Niðurstöðurnar sýna jákvæða þróun í rekstri bæjarfélagsins. Í A hlutanum hækkar veltufé frá rekstri sem hlutfall af rekstrartekjum úr 2,5% á árinu 2004 í 8,1% á árinu 2005. Gengisáhætta bæjarfélagsins var lækkuð verulega á árinu með niðurgreiðslu erlendra lána. Heildarskuldir hefðu staðið í stað ef ekki hefði komið til viðbótar skuldfærsla á tekjum vegna gatnagerðar.

Íbúar bæjarfélagsins voru 22.451 um síðustu áramót og fjölgaði um 509 á árinu eða um 2,3% samanborið við 3,5% árið áður.