Áætlað er að afkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um tæplega 69 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020, eða sem nemur 9,4% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi dregist saman um 5% milli ára og að útgjöld hafi aukist um 13,4% á sama tímabili, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Sagt er frá því að efnahagsaðgerðir stjórnvalda sem gripið var til vegna faraldursins hafi haft mikil áhrif á tekjuöflun hins opinbera sem og útgjöld þess. Tekjur af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman um ríflega fimmtung. Þar vegur þyngst samdráttur í innheimtum tekjum af virðisaukaskatti sem drógust saman um 37%. Áætlað er að tekjur af tryggingagjaldi hafi dregist saman um 6,2% en tryggingargjaldið hefur verið lækkað um 0,25 prósentustig.

Hvað varðar útgjöld vegur launakostnaður þyngst en hann er áætlaður þriðjungur af heildarútgjöldum hins opinbera. Áætlað er að félagslegar tilfærslur til heimila hafi aukist um 15% milli ára og má rekja stærsta hluta aukinna útgjalda til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Á meðal annarra þátta má nefna að framleiðslustyrkir hins opinbera hækkuðu um tæp 134% milli ára, þar vegur greiðsla launa á uppsagnarfresti þyngst sem nam 9,4 milljörðum króna.